„Hluti af for­rétt­indafirr­ingu þeirra sem eru kristn­ir“

Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar.
Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar. Ljósmynd/Aðsend

Fjárstyrkur, sem að Þjóðkirkjan fékk í gær frá félags- og vinnumálaráðuneytinu til að veita aðstandendum fanga stuðning, er partur af forréttindafirringu kristinna í kristnu samfélagi og væri slíkur stuðningur betur settur í höndum fagfólks á borð við félagsráðgjafa og sálfræðinga. Þetta segir Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður siðmenntar í samtali við mbl.is í dag, en greint var frá fyrrgreindum styrk í gær.

Aðspurð hvað henni finnist um styrkinn til Þjóðkirkjunnar tekur Inga fyrst fram að hún fagni því að það sé verið að veita aðstandendum fanga einhverja aðstoð en að hún gagnrýni þó leiðina sem farið er að veita þessa aðstoð.

„Við sem ekki trúum ekki á guð eða aðhyllumst einhver önnur trúarbrögð verðum að gagnrýna það að það sé eitt félag sem standi ofar öðrum sem fær að sitja algjörlega eitt að þessari köku,“ segir Inga.

Hún segir þetta eitt af mörgu í samfélaginu sem mismunar fólki sem trúir ekki á hinn kristna guð og bætir við „Þjóðkirkjan og Biskupsstofa halda því alltaf fram að svona stuðningur og sálgæsla kirkjunnar sé alltaf boðin fram á trúarlega hlutlausum grundvelli og sé öllum opinn en það er auðvitað hluti af forréttindafirringu þeirra sem eru kristnir í kristnu samfélagi.“ Að mati Ingu er svona aðstoð ekki fyrir alla um leið og aðstoðin er boðin á trúarlegum grundvelli.

Tekur Inga einnig fram að Ísland getur ekki kallað sig trúfrjálst samfélag á meðan að eitt trúfélag fær meiri og víðtækari þjónustu heldur en önnur trúfélög og lífsskoðunarfélög fá. 

Betra í höndum fagfólks

Metur Inga það svo að umrædd þjónusta væri betur stödd í höndum faglærðra félagsráðgjafa og sálfræðinga. „Okkar viðhorf er það að þetta ætti að vera veraldlega þjónusta, fagleg þjónusta sem er í boði ríkisins á vegum fagfólks. Ég sé ekki af hverju það er nauðsynlegt að hafa trúarlegan vinkil á þessu,“ segir Inga.

Bætir Inga við að ef það þurfi endilega að vera trúarlegt ívaf yfir þessu þyki henni betra að þjónustusamningur yrði gerður við öll trúfélög landsins en ekki aðeins eitt.

Vísar Inga þá til könnunar sem Siðmennt gerði árið 2020 þar sem þau könnuðu hve margir myndu þiggja sálgæslu frá kirkjunni. Í könnuninni kemur fram að aðeins 18,2 prósent telji sig mjög líklegan til að þiggja sálgæslu og 20,9 prósent telji sig líklegan til að þiggja sálgæslu. Könnunina er hægt að sjá í Twitter færslu Ingu sem er hér neðar í fréttinni.

„Þetta sýnir svart á hvítu að þó að kirkjan segi að þjónustan sé fyrir alla geta ekki allir hugsað sér að þiggja hana á trúarlegum grundvelli,“ segir Inga.

Lagaði fyrirsögnina

Inga Auðbjörg tjáði sig um málið á samfélagsmiðlinum Twitter í gær en þar ávarpaði hún Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra og lét hann vita að hún væri búin að laga fyrirsögn fréttarinnar þar sem tilkynnt var um styrkinn til Þjóðkirkjunnar. Twitter færsluna er hægt að sjá hér fyrir neðan.

Lýsir Inga jafnframt yfir vonbrigðum í garð ráðherra í samtali við mbl.is. „Ég hélt að þessi ráðherra væri ráðherra jöfnuðar og jafnréttis og þar á meðal trúfrelsis. Þar af leiðandi finnst mér þetta einkar leiðinlegt,“ segir Inga í lokin í samtali sínu við mbl.is.


 

mbl.is