Icelandair kynnir nýja áfangastaði

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair greinir frá því að flugframboð félagsins aukist nú dag frá degi en alls er flogið til 44 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli, 30 í Evrópu og 14 í Norður-Ameríku. Icelandair kynnir jafnframt þrjá nýja áfangastaði í sumar, Róm, Nice og Raleigh-Durham í Norður-Karólínu.

Fram kemur í tilkynningu, að langoftast sé flogið til Kaupmannahafnar en þangað verður flogið allt að fimm sinnum á dag í sumar. Félagið flýgur þrisvar sinnum á dag til Boston, New York og Parísar og tvisvar á dag til London, Osló, Stokkhólms og Amsterdam. Þannig geti viðskiptavinir valið brottfarartíma innan dagsins sem hentar þeim best til og frá þessum áfangstöðum.

350 ferðir á viku þegar mest lætur

„Icelandair flýgur nú rúmlega 200 ferðir á viku til áfangastaða erlendis en tíðnin verður allt að 350 ferðir á viku þegar mest lætur. Þannig verður Icelandair með tæp 60% af heildarflugáætlun um Keflavíkurflugvöll og munu um 3.500 manns starfa hjá félaginu í sumar. Alls flýgur félagið 6.700 ferðir frá Keflavíkurflugvelli frá 1. maí til 1. október og heildarfjöldi flugsæta er um 2,5 milljónir,“ segir í tilkynningu.

Þá kemur fram, að flug til Raleigh-Durham hafi hafist 12. maí og það styttist í beint flug til Rómar og Nice en það hefst 6. júlí. Þá hefur félagið flug á nýjan leik til fjölda árstíðarbundinna áfangastaða.

Heilsársáfangastaðir sem félagið býður flug til eru Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Osló, Helsinki, Amsterdam, París, Berlín, Frankfurt, Munchen, Zurich, London, Glasgow, Manchester, Dublin, Boston, New York, Seattle, Washington, Denver, Chicago, Toronto, Tenerife, Nuuk og Kulusuk.

Árstíðarbundnir áfangastaðir eru Róm, Nice, Montreal, Alicante, Raleigh-Durham, Bergen, Billund, Hamborg, Genf, Brussel, Minneapolis, Vancouver, Portland, Baltimore, Mílanó, Madrid, Salzburg, Orlando, Ilulissat og Narsarsuaq.

Ísland vinsæll ferðamannastaður

 „Við finnum fyrir miklum ferðaáhuga á öllum okkar mörkuðum og sumaráætlunin okkar er metnaðarfull og umfangsmikil í takt við það. Ísland er sem fyrr mjög vinsæll ferðamannastaður og má búast við að Icelandair flytji talsverðan fjölda ferðamanna til landsins í sumar sem munu skapa mikilvægar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt hagkerfi. Einnig er ferðahugur í Íslendingum sem sækja sem fyrr mikið í sólina en auk þess höfum við fundið fyrir töluverðum áhuga á ferðum til að hvetja stelpurnar okkar á  EM kvenna í knattspyrnu sem fram fer á Englandi í júlí,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.  

Nánari upplýsingar um flugáætlun Icelandair er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert