Kosningasigur Pírata hljóti að telja í viðræðunum

Dóra Björt segir að kosningasigur Pírata hljóti að telja.
Dóra Björt segir að kosningasigur Pírata hljóti að telja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni, segir klárt mál að það hljóti að telja í viðræðum um myndun nýs meirihluta að flokkurinn sé sá eini úr gamla meirihlutanum sem vann ákveðinn kosningasigur og bætti við sig einum borgarfulltrúa. Bæði Samfylkingin og Viðreisn töpuðu borgarfulltrúum.

„Það er klárt mál að verður að telja innan meirihlutaviðræðna fyrir hönd okkar umbjóðenda, bæði hvað varðar málefni og stöður og tækifæri til fylgja þeim eftir. Ég held að að sé alveg ljóst. Hvernig það verður held ég að verði að skýrast. Það er það sem þessar viðræður snúast um,“ segir Dóra í samtali við mbl.is.

Víkja ekki frá því að vera „harðlínugræn“ 

Hvað varðar helstu málefnakröfur segir Dóra flokkinn hafa viljað ganga langt í loftslagsmálum, þegar að borgarlínu og vistvænum samgöngunum og segir hún mikilvægt að halda þeirri vegferð áfram. „Við höfum stundum verið kölluð harðlínugræn þannig það er alls ekki eitthvað sem við viljum víkja frá, en svo er auðvitað spurningin hvernig við mótum aðra þætti þarna í kring.“

Hún segir vinnubrögð innan borgarstjórnar og samtal við íbúa skipta miklu máli og hvernig haldið sé á þeim málum. „Það er eitthvað sem við munum beita okkur fyrir áfram og getum ekki vikið frá. Baráttan gegn spillingu er okkar hjartans mál og þetta eru mikilvæg tól á þeirri vegferð.“

Langsótt að túlka vilja kjósenda 

Aðspurð hvort hún telji að sú skoðun Einars Þorsteinssonar, oddvita Framsóknar, að myndun þessa meirihluta hafi ekki endilega verið vilji kjósenda, hafi áhrif á viðræðurnar segir Dóra rosalega langsótt að túlka vilja kjósenda með einum eða öðrum hætti.

„Það er alveg ljóst að hér erum við fjórir flokkar og við stöndum fyrir hönd þrettán borgarfulltrúa sem er breiður meirihluti og það hlýtur þá að endurspegla einhvern vilja kjósenda líka. Það er alltaf þannig eftir kosningar að það eru allskonar sérfræðingar og sjálfskipaðir sérfræðingar sem hlaupa af stað kveða upp um það hvað hefur verið vilji kjósenda eða niðurstöður kosninga og ákall kosninga, en það er bara mjög vandmeðfarið mál að túlka það raunverulega.“

Útilokaðir flokkar hljóti að spyrja sig af hverju

Hún bendir á að Píratar standi eftir með aukið umboð sem hljóti að endurspegla vilja kjósenda að einhverju leyti. „Við útilokuðum Sjálfstæðisflokkinn og vorum mjög skýr með það, þannig það er ákveðinn hluti kjósenda sem vill þær áherslur.“

Dóra segir jafnframt að þeir flokkar sem hafi verið útilokaðir hljóti að spyrja sig af hverju. Það sé ekki nóg að hafa einhver atkvæði á bakvið sig ef það er enginn sem vill vinna þeim. Einhverjar upplýsingar hljóti að felast í því.

Dóra segir að ef stefnuskrárnar séu skoðaðar þá ættu þessar viðræður að ganga upp og skila nýjum meirihluta, að því gefnu að samtalið sé uppbyggilegt og jákvætt.

„Mín tilfinning er sú að við séum öll full eftirvæntingar og teljum að þetta geti gengið og ég fer inn í þetta samtal með þá von í brjósti.“

mbl.is