Lifði á fjármunum systra með heilabilun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Nágrönnum aldraðrar konu þótti undarlegt að hún væri daglega sótt af meintu vinafólki um hádegisbil og skilað heim klukkan tíu að kvöldi.

Þetta kemur fram í dómi vegna máls Rosio Bertu Calvi Lozano. Hún var sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. apríl fyrir að hafa nýtt sér bága stöðu systra á tíræðisaldri, sem þjást af heilabilun, um árabil og haft af þeim tugmilljónir, en dómurinn var birtur í gær.

Dró sér tæpar 76 milljónir

Rosio var sakfelld í fjórum liðum ákærunnar en sýknuð í tveimur. Hún var sakfelld fyrir umboðssvik vegna beggja systranna, eignir hennar gerðar upptækar og hún dæmd að endurgreiða 75.855.233 krónur, sem hún hafði dregið sér. Þá hlaut hún tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm.

Hún var aftur á móti sýknuð af ákærulið um misneytingu við gerð erfðaskrár, og af öðrum ákærulið um gripdeildir vegna sönnunarskorts. Þá var ekki fallist á að um peningaþvætti hefði verið að ræða. 

Umboðin ógild

Systurnar eru fæddar 1928 og 1929 í Skagafirði. Sú yngri bjó lengst af erlendis en skyldmenni systranna beittu sér svo fyrir því að fá hana heim til Íslands eftir að hún fór að sýna ummerki heilabilunar. Hefur hún því búið á hjúkrunarheimili hér á landi frá árinu 2005.

Sú eldri hafði umboð til þess að annast málefni yngri systur sinnar. Starfaði hún í sérhæfðum verkefnum, sem gjaldkeri hjá ótilgreindu sendiráði, uns hún lét af störfum sökum aldurs. Hún kynntist Rosio í tengslum við boð í sendiráðinu árið 1994. 

Með tímanum þróaðist með þeim vinskapur og til þess kom árið 2012, að eldri systirin veitti Rosio umboð til þess að annast fjármál sín, sem og systur sinnar.

Í dómi héraðsdóms segir að þessi umboð hafi ekki haft gildi. Niðurstöður dómskvaddra matsmanna leiði líkur að þvi að hún hafi ekki verið fær um slíkar ráðstafanir, enda byrjuð að sýna merki um heilabilun árið 2008.

Rosio hélt því þó fram að hún hefði ekki tekið eftir að andlegri heilsu hennar hefði hrakað fyrr en árið 2017, skömmu áður en rannsókn hófst á auðgunarbrotum hennar, en ættingjar systranna létu leggja þær inn á Landspítala vegna vitrænnar skerðingar árið 2017 og voru þær báðar sviptar sjálfræði og fjárræði. 

Dvaldi daglega á heimili Rosio

Í vitnisburði Rosio og eiginmanns hennar kom fram að á árunum 2011 til 2017 hafi samskipti við eldri systurina verið orðin dagleg. 

Hún hafi vaknað um hádegisbil og þau sótt hana, þá hafi hún dvalið á heimili þeirra fram eftir kvöldi og tekið þátt í heimilislífi þeirra með ýmsum hætti. 

Komið var upp öryggismyndavélum inni í íbúð konunnar sem voru beintengdar í síma eiginmanns Rosio. Þá var sími hennar tengdur þannig að símtöl bárust í síma Rosio, og dyrabjallan var aftengd, fyrir tilstilli Rosio. 

Hjónin héldu því fram að umræddar aðgerðir hafi verið til þess að aðstoða systurina en ættingjar telja þær hafa verið til þess fallnar að hindra samskipti við aðra.

Rosio fjármagnaði eigin neyslu, rekstur heimilisins og fjölskyldunnar, með fjármunum yngri systurinnar, auk þess sem hún réðst í gjaldeyrisfjárfestingar. 

Hjónin báru því bæði við að yngri systirin hefði talað um ættmenni sín sem „hyski“ og ekki haft áhuga á því að þau erfðu hana. Þá hefði hún verið tortryggin gagnvart íslenskum bönkum og því viljað að fjármagnið rynni til þeirra. 

Gullhúðaðir munir

Á heimili Rosio fundust ýmsir munir úr búi eldri systurinnar. Verðmætustu munirnir voru gullhúðað skrín, með spöng fyrir upphlut og gullhúðað stokkabelti fyrir upphlut sem höfðu verið í eigu yngri systurinnar.

Rosio hélt því fram að eldri systirin hefði gefið sér muni jafnt og þétt. Tókust því ekki sönnur, gegn neitun hennar, á því að um gripdeild væri að ræða. 

Sterkur og einbeittur brotavilji

Rosio hefur ekki gerst brotleg áður og er það metið henni til málsbóta.

Aftur á móti er litið til þess að um var að ræða háar fjárhæðir, endurtekin brot yfir langan tíma og sterkan og einbeittan brotavilja. Er það metið til refsiþyngingar. 

Þá var einnig metið til refsiþyngingar að brotin beindust að minni máttar og fólu í sér trúnaðarbrot. 

Rosio á fasteign í Mosfellsbæ sem metin er á 93 milljónir króna samkvæmt opinberu fasteignamati. Fallist var á að hún yrði gerð upptæk, sem og reiðufé á bankareikningi hennar. 

Auk þeirra 76 milljóna sem hún hefur verið dæmd til að endurgreiða, er henni gert að greiða rúmlega 6,2 milljónir í sakarkostnað. 

mbl.is