Ný brú reist yfir Dimmu og sú gamla löguð

Gamla brúin kom illa undan vetri.
Gamla brúin kom illa undan vetri.

Í byrjun júní verður ráðist í bráðabirgðaviðgerðir á brúnni yfir ána Dimmu við Breiðholtsbraut og ný brú reist í kjölfarið. Þetta segir á vef Reykjavíkurborgar.

Smíðaðar verða timburtröppur og skábraut yfir þær gömlu og er vonast til þess að þær viðgerðir dugi þar til ný hefur verið reist.

Nýja brúin verður staðsett um 200 metra neðan við núverandi brú, lágreist trébrú með aðskildum göngu- og hjólastígum.

„Vonir standa til þess að ný brú verði komin í gagnið sumarið 2023 og að bráðabirgða aðgerðir á núverandi brú standist áraunir og notkun þangað til,“ segir á vef borgarinnar.

Tröppur brúarinnar voru í raun ónýtar.
Tröppur brúarinnar voru í raun ónýtar.

Kom illa undan vetri

Áin Dimma er sá hluti Elliðaáa sem rennur vestan Víðivalla. Brúin kom illa undan vetri og er nú orðin hættuleg sökum þess hversu illa tröppurnar eru farnar.

Upphaflega þjónaði brúin sem lagnaleið fyrir heitt og kalt vatn og hefur verið notuð sem göngubrú um árabil.

Úti Inni Arkitektar og Verkís verkfræðistofa unnu forhönnun brúarinnar, að því er segir á vef borgarinnar.

Nýja brúin verður staðsett um 200 metra neðan við núverandi …
Nýja brúin verður staðsett um 200 metra neðan við núverandi brú, lágreist trébrú með aðskildum göngu- og hjólastígum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is