Segir sérstakan stað í helvíti fyrir VG

Séra Davíð Þór Jónsson sóknarprestur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Séra Davíð Þór Jónsson sóknarprestur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Samsett mynd

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Lauganeskirkju, er ekki ánægður með þau áform ríkisstjórnarinnar um að vísa skuli um 300 flóttamönnum úr landi.

Í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag fer hann ófögrum orðum um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Hann segir að þingmenn og ráðherra Vinstri grænna séu „sek eins og syndin“ og að það sé „sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur“.

„Í fréttum er það helst að fasistastjórn VG hefur ákveðið að míga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ hefst pistill séra Davíðs Þórs.

„Þar er kveðið á um að allar ákvarðanir sem varði heill og hamingju barna beri að taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.“

Þetta mun vera í annað skipti á tveimur mánuðum sem séra Davíð gagnrýnir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur harðlega, en hann hélt erindi á mótmælum sem haldin voru í byrjun apríl er varðaði sölu ríkisins í 22,5% hlut sínum í Íslandsbanka.

Þess má geta að Davíð Þór Jónsson og Katrín Jakobsdóttir eru fyrrverandi par.

Sauð upp úr í þingsal um málið

Málið sem Davíð Þór vísar í er að það standi til þess að vísa 300 einstaklingum úr landi sem ekki var hægt að vísa úr landi meðan ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru í gildi. Mörg hver hafa því dvalið hér á landi um árabil og aðlagast samfélaginu á meðan.

Skiptar skoðanir eru meðal fólks um málið og sauð meðal annars upp úr í þingsal um málið milli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, ráðherra Vinstri grænna, og Sigmars Guðmundssonar, þingmanns Viðreisnar.

Í beinni mótsögn við stjórnarandstöðutíð VG

Davíð Þór segir þetta í beinni mótsögn við það hvernig flokkurinn talaði meðan hann voru í stjórnarandstöðu.

„Þinglið og ráðherrar VG eru ekki lengur bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru einfaldlega sek eins og syndin,“ segir í færslu séra Davíðs.

Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur.“

Færsla séra Davíðs Þórs Jónssonar í heild:

mbl.is