Sömu varúðarráðstafanir í gildi

Smitvarnarreglur fyrir alífugla voru hertar í vetur vegna fuglaflensu.
Smitvarnarreglur fyrir alífugla voru hertar í vetur vegna fuglaflensu. mbl.is/Árni Sæberg

Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu er enn í gildi hjá Matvælastofnun. 

„Tilkynningum um veikar eða dauðar súlur fer ekki fækkandi og þar af leiðandi eru sterkar vísbendingar um að enn séu smit í gangi. Aukið viðbúnaðarstig er enn í gildi sem og hertar smitvarnarreglur fyrir alifugla og aðra fugla. Við viljum eins og áður fá tilkynningar frá almenningi þegar dauðir fuglar finnast. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur,“ segir Brigitte Brugger sérgreinadýralæknir í alifuglasjúkdómum hjá Matvælastofnun. 

Morgunblaðið birti á laugardaginn ábendingu frá sjómanni sem varð var við dauðar súlur á Faxaflóa nokkra daga í röð en aðrir fuglar á svæðinu virtust hraustir. Brigitte kannast við málið og segir vísbendingar hníga að því að súlurnar hafi drepist úr fuglaflensu. 

„Við höfum nánast látlaust fengið tilkynningar um veikar eða dauðar súlur á þessu svæði síðan um miðjan apríl. Það sem Matvælastofnun gerir er að skrá allar tilkynningar hjá okkur og þær gefa okkur vísbendingu um líkleg smit sem séu enn til staðar. Matvælastofnun rannsakar súlurnar ekki nánar heldur notar upplýsingarnar til að meta smithættu á fuglaflensu fyrir alifugla og landið allt.

Það er í raun ekki rannsakað hvort súlurnar drepist úr fuglaflensu eða hvort veiran greinist í þeim en þær hafi drepist úr einhverju öðru. Það er möguleiki en einkennin benda til þess að þær hafi drepist úr fuglaflensu. Það er í raun engin stofnun með það hlutverk eða með fjármagn til að rannsaka þetta sérstaklega,“ segir Brigitte Brugger. 

mbl.is