Töluvert dregið úr jarðskjálftavirkni

Mesta virknin síðustu daga hefur verið á afmörkuðu svæði norðan …
Mesta virknin síðustu daga hefur verið á afmörkuðu svæði norðan Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluvert hefur dregið úr jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum undanfarna sólarhringa, samanborið við dagana á undan, að því er kemur fram í færslu Eldfjalla- og náttúruváshóps Suðurlands á Facebook.

Segir jafnframt að mesta virknin síðan síðustu helgi hafi verið á afmörkuðu svæði norðan Grindavíkur. Þá hefur aðeins einn jarðskjálfti náð þremur að styrk síðustu tvo daga.

Aftur á móti segir að ekkert lát sé á landrisi á svæðinu miðað við GPS mælingar jarðvísindadeildar HÍ þrátt fyrir minni jarðskjálftavirkni.

„Landris við Þorbjörn er stöðugt og hefur fjallið ný risið um 50-60 mm síðan yfirstandandi umbrotahrina hófst. Sama þróun er að sjá á öðrum GPS mælum á svæðinu, t.d. Skipastígahrauni, Eldvörpum og Grindavík,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert