Er hámhorfið á undanhaldi?

Einn vinsælasti þátturinn í sjónvarpi í dag, Severance, er fáanlegur …
Einn vinsælasti þátturinn í sjónvarpi í dag, Severance, er fáanlegur á Apple TV+. Einn nýr þáttur var settur inn á veituna í hverri viku í vetur.

Rétt tæpur áratugur er liðinn frá því sjónvarpsþættirnir House of Cards fóru í sýningar á Netflix. Þarna urðu nokkur tímamót. Ekki einasta varð ljóst að streymisveita gæti velgt gömlum stofnunum á sjónvarpsmarkaði undir uggum og laðað að sér færa leikstjóra og stórar stjörnur. Hitt var ekki síður mikilvægt að þarna breyttist sjónvarpsneysla margra. Allt í einu var hægt að nálgast heila þáttaröð af úrvalsefni og horfa á hana alla á frumsýningardegi ef fólki svo sýndist. Þessi nýjung sló í gegn og Netflix færðist bara í aukana í kjölfarið.

En nú eru merki um að þessi þróun sé að ganga til baka. Netflix hefur misst marga áskrifendur að undanförnu og fyrirtækið hefur þurft að segja upp starfsfólki. Á sama tíma eru flestir vinsælustu nýju þættirnir í sjónvarpi í dag sýndir með gamla laginu, einn þáttur í hverri viku. Í umfjöllun The Guardian á dögunum er rakið að þetta eigi við þætti á borð við Yellowjackets, Severance, The Dropout, Moon Knight og Winning Time. Amazon hafi horfið frá því að frumsýna heilar þáttaraðir í einu og veitur á borð við Disney+, Apple TV+ og HBO hafi aldrei stokkið almennilega á þann vagn. Netflix sé í raun eina veitan sem treysti á að áhorfendur hámi í sig nýtt efni.

Netflix hefur skipt um kúrs

„Stóru efnisveiturnar utan Netflix eru allar með áratuga sögu sem framleiðendur sjónvarpsefnis og þekkja því ekkert annað en línulega dagskrá og að sýna aðeins einn þátt í viku,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans.

Hann segir að stóru veiturnar hafi leikið sér með útfærslur á streymisveitunum sínum, sett inn heilar þáttaraðir, sett tvo til þrjá þætti í einu eða aðeins einn þátt. „Netflix hefur einnig skipt um kúrs síðustu árin og framleitt færri stórar þáttaraðir og einblínt á raunveruleikaþætti, nálgun sem mætti segja að hafa mistekist enda hefur áskrifendum þar fækkað á heimsvísu. Þannig hefur athyglin í auknum mæli færst frá Netflix að Disney+, AppleTV+, Hulu og HBO Max sem hafa verið að framleiða stórar og vandaðar þáttaraðir,“ segir Guðmundur.

En af hverju virðist hámhorfið vera á undanhaldi? Kannski er skýringin einfaldlega sú að hámið kemur í veg fyrir gamla góða spjallið við kaffivélina daginn eftir stóra sjónvarpsviðburði. Þegar allir eru á mismunandi stað í áhorfinu er ekki hægt að bera saman bækur sínar og fara yfir nýjustu vendingar.

Guðmundur bendir á að síðustu misseri hafi umgjörð framleiðslunnar og markaðssetningar fyrir stærri þætti breyst. Þannig séu nú oft framleidd sérstök hlaðvörp sem fari í loftið eftir sýningu hvers þáttar og með þeim sé byggð upp spenna og umtal fyrir næstu viku. Slíkt sé ekki mögulegt með sama hætti með hámhorfinu.

„Efnisveiturnar hafa djúp rauntímagögn um allt áhorf og geta með því með ágætis vissu sagt til um hvernig sé best að koma þáttum í sýningu. Sumt efni er kannski best að setja allt út í einu en annað nýtur sín betur í vikulegum þáttum og þannig má lengja líftíma efnisins og halda áskrifendum lengur í viðskiptum sem vilja ekki missa af næsta þætti,“ segir Guðmundur.

Litlar breytingar á Íslandi

Ekki hefur orðið vart við miklar breytingar á íslenskum sjónvarpsveitum. Guðmundur segir að í Sjónvarpi Símans Premium sé allur gangur á því hvernig efni komi inn.

„Við hjá Símanum fylgjumst með þróuninni en það er ekkert að sjá í áhorfstölum annað en að við séum enn á réttri leið. Við búum að því að vera með fjölbreytt efni frá mörgum ólíkum framleiðendum. Þannig erum við með vinsælt sjónvarpsefni á dagskrá sem annaðhvort kemur inn í heild sinni, vikulega eða daglega. Sú nálgun gerir það mögulega að verkum að við erum ekki eins næm fyrir þessum sveiflum.“

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. maí

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert