Fjögurra barna móðir dúxaði með 9,7

Íris Björk Árnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í sérgreinum …
Íris Björk Árnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Ljósmynd/Aðsend

Íris Björk Árnadóttir útskrifaðist í dag af sjúkraliðabraut Heilbrigðisskóla FÁ með 9,7 í lokaeinkunn. Hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir frábæran árangur í sérgreinum sjúkraliðabrautar og fékk tíu í einkunn fyrir lokaritgerð sína.

„Ég vissi að mér hefði gengið vel og að ég væri hæst í lokaverkefninu en þetta kom skemmtilega á óvart og ég er bara ánægð með það enda alltaf gaman og auðvelt að læra það sem maður hefur áhuga á,“ segir Íris í samtali við mbl.is.

Íris, sem er 41 árs fjögurra barna móðir, starfar í dag á hjartadeild Landspítalans og sem flugfreyja hjá Icelandair.

„Ég stundaði þetta nám í Danmörku fyrir tólf árum en vegna skyndilegra flutninga heim til Íslands kláraði ég ekki alveg og fór því að vinna hérna heima.“

Missti vinnuna í Covid-faraldrinum

Íris missti vinnuna hjá Icelandair þegar Covid-faraldurinn skall á. „Ég ákvað þá að þetta væri bara tækifærið, það væru nýjar dyr að opnast og ég ákvað að kanna hvað ég þyrfti að klára og hvað ég gæti fengið metið,“ segir hún.

„Ég tók sérgreinar sjúkraliðabrautar aftur, með verknámi og öllu, en svo bara gerist það að ég fékk vinnuna hjá Icelandair aftur, sem var frábært og það gekk vel að tvinna þetta saman, eða svona nokkurn veginn,“ segir hún en bætir við að oft hafi hún þurft að mæta í tíma beint eftir flug. Sótti Íris því um þriggja mánaða launalaust leyfi hjá Icelandair til að einbeita sér betur að náminu.

Íris Björk Árnadóttir útskrifaðist í dag af sjúkraliðabraut FÁ.
Íris Björk Árnadóttir útskrifaðist í dag af sjúkraliðabraut FÁ. Ljósmynd/Aðsend

Spurð um hvað sé framundan segist Íris ætla að halda áfram að fljúga með Icelandair ásamt því að starfa á hjartadeildinni.

„Þetta vinnur vel saman, það eru ansi oft veikindi um borð og svo eru þetta líka bara svo ólík störf, það er frábært að fljúga og gaman að hitta nýtt fólk en þú labbar líka bara úr vinnunni og skilur daginn eftir þar. Á hjartadeildinni er maður oft að glíma við ýmislegt erfitt og alls konar áskoranir, en það gefur mér samt svo mikið.“

„Þegar maður fer í nám svona eins og ég, ég á fjögur börn, þá gerir maður þetta á öðrum forsendum, maður fer af því að maður hefur áhuga á þessu og er bara að gera þetta fyrir sig sjálfan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert