Suðræn hlýindi um helgina

Miðja grunnrar lægðar færist yfir landið í dag með tilheyrandi regnsvæði og því verður víða vætusamt, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Hann tekur þó sérstaklega fram að á norðvestanverðu landinu verði líklega lítil úrkoma. Um helgina er útlit fyrir hlýindi.

Spáir veðurfræðingurinn því að vindur verði víða hægur og áttin breytileg. Hitinn verður á bilinu fimm til tíu stig. 

„Á morgun snýst í norðanátt, víða á bilinu 5-10 m/s. Súld eða rigning norðan- og austanlands og því þungbúinn og svalur dagur í vændum á þeim slóðum. Rofar til sunnan heiða og bjart með köflum þegar kemur fram á daginn, en þó má búast við síðdegisskúrum á stöku stað. Hlýnar þar sem sólin nær að skína, upp í um 13-14 stig þegar best lætur sunnanlands,“ segir í hugleiðingunum og jafnframt:

„Spár gera síðan ráð fyrir að um helgina færist hlýr loftmassi af suðlægum uppruna yfir landið.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is