Traktor valt og leiddi til tafa í Ártúnsbrekku

Frá aðgerðum lögreglu í Ártúnsbrekku í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu í Ártúnsbrekku í morgun.

Einn var fluttur á sjúkrahús í morgun þegar sláttutraktor og flutningabíll rákust á í Ártúnsbrekku um sjöleytið með þeim afleiðingum að traktorinn valt. Einstaklingurinn, ökumaður traktorsins, reyndist vera með minniháttar áverka.

Að sögn sjónarvotta skapaðist talsverð umferðarteppa vegna atviksins og að sögn lögreglu eru enn umferðartafir á svæðinu þó að ekki hafi verið gripið til lokunar.

Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglu hefur traktorinn verið fjarlægður af vettvangi.

Slökkviliðsbíll var einnig kallaður á vettvang en glussi, eða vökvakerfisolía, lak úr traktornum. Hann þarf að hreinsa upp.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is