Barn bitið af hundi í Hafnarfirði

Hundaeigandinn lét sig hverfa áður en lögreglu bar að.
Hundaeigandinn lét sig hverfa áður en lögreglu bar að. mbl.is/Sigurður Bogi

Barn á grunnskólaaldri var bitið af hundi í Hafnarfirði í dag. Talið er að hundurinn hafi verið í ól hjá eiganda sínum en hundaeigandinn lét sig hverfa áður en lögreglu bar að og er því ekki vitað hver hann er.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

„Þau viðbrögð þarf viðkomandi að eiga við eigin samvisku en barnið slapp blessunarlega með skrekkinn,“ segir í dagbók lögreglu.

Einn undir áhrifum vímuefna

Umferðaróhapp varð í höfuðborginni í dag þar sem einn aðili var fluttur með sjúkrabifreið, en ekki var um meiriháttar slys að ræða.

Fjórir ökumenn voru staðnir að akstri á nagladekkjum og tveir sektaðir fyrir of hraðan akstur.

Þá voru þrír ökumenn staðnir að akstri eftir að hafa verið sviptir ökuréttindum en sá þriðji var einnig ölvaður. Einn var tekinn undir áhrifum vímuefna við akstur.

Harmleikur á Miklubraut

Almennur borgari tók á sig umferðarstjórnun á Miklubraut í dag er andafjölskylda strunsaði þar yfir, þrátt fyrir það lét ein önd lét lífið.

„Þá varð harmleikur á Miklubraut seinni part dags, þegar andafjölskylda strunsaði þar yfir í síðdegisumferðinni. Miskunnsamur borgari reyndi sig við umferðarstjórnun á vettvangi, en þrátt fyrir bestu viðleitni varð ein andanna fyrir bifreið og lést.

Á vettvang fór sérþjálfaður bifhjólaliði umferðardeildar og tók við umferðarstjórn svo ekki féllu fleiri í valinn þetta síðdegið,“ segir í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert