Frumskógarlögmálin ráða ríkjum á Íslandi

Mikil eftirspurn er eftir eiturlyfjum á Íslandi.  Frumskógarlögmál gilda við kaup og sölu þeirra og ungmenni eru óhræddari við að beita vopnum en áður.

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.

Tíu voru handteknir og fimm færðir í gæsluvarðhald í tengslum við stórt fíkniefnamál fyrir um viku síðan. Lögregla lagði hald á nokkra tugi kílóa af fíkniefnum og tveimur knæpum var lokað vegna rannsóknarinnar; Gamla enska, einum af bæjarölhúsum Hafnarfjarðar, og Catalínu í Hamraborg í Kópavogi.

Er meintur höfuðpaur í málinu annar eigandi Gamla enska en hann starfaði áður á Catalínu.

Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn Gamla enska sögðu í samtali við RÚV að það hafi komið þeim á óvart þegar lögreglu bar að garði og að engan hafi grunað að nokkuð misjafnt hefði átt sér stað.

Starfsfólk dró það mjög í efa að staðurinn sjálfur tengdist málinu með nokkrum hætti. Eigandi Catalínu tók skýrt fram að maðurinn hefði ekki komið að rekstri staðarins þegar hann starfaði þar.  

Helgi segir eftirtektarvert að sjá að í hóp handtekinna sé fólk sem áður hafi hlotið þunga dóma fyrir fíkniefnabrot.

„Þetta eru einstaklingar eða hið minnsta einstaklingur sem hefur áður hlotið þunga dóma en lætur sér ekki segjast. Þetta bendir til þess að það sé mikil spurn eftir þessari vöru sem fíkniefni eru og markaðurinn sé stór og arðvænlegur. Væntanlega er það mikill hagnaður í þessu að mönnum finnst það vera þess virði að stunda þessa starfsemi. Mér finnst líklegt að þessi aðili hafi verið í þessu um einhvern tíma þar og þessi starfsemi hafi ekki farið í loftið í gær.“

Einn þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi hefur tvisvar áður hlotið níu ára dóm fyrir fíkniefnabrot, fyrst árið 2000 og svo 2007.

Helgi segir að augljóslega sé um mjög skipulagða starfsemi að ræða, þar sem margir taki þátt og skipulagið sé úthugsað.

Það bendir til þess að eftirspurnin sé veruleg og framleiðslan því talsverð. „Þetta eru mikil viðskipti og fagleg vinnubrögð og mikil verkaskipting til þess að mæta eftirspurninni á markaðnum.“

Þar ríkja frumskógarlögmálin

Undanfarið hefur notkun vopna aukist og þá hefur beiting skotvopna sérstaklega færst í aukana. Árlega voru vopnuð útköll sérsveitarinnar um 200 á ári allt fram til ársins 2020 en undanfarin tvö ár hefur sú tala nær tvöfaldast. Það sem af er ári, hafa verið tvær skotárásir á Íslandi og segir Helgi að hugmyndafræði undirheimana hafi breyst.

„Dæmin þar sem vopnum er beitt eru fleiri á undanförnum árum. Mest eru það karlar í kringum tvítugsaldurinn sem bæði bera vopn og vilja beita þeim. Það er stórt skref, hvort sem um er að ræða byssur eða eggvopn. Það lítur út fyrir að hugmyndafræðin hjá þessum hópum sé á þann veg að þeir þurfi að bera vopn, hvort sem það er til að virðast stærri karl eða hvað sem það er. Þeir eru ekki hræddir við að nota vopnin. Þar sem þú getur ekki hringt i Securitas þegar þú ert á þessum aldri og ekur um á Range Rover, þá hugsar hver um sig og þar ríkja frumskógarlögmálin,“ segir Helgi.

Ástæðuna fyrir aukinni vopnvæðingu segir Helgi vera þá að í þessum erindagjörðum séu hópar sem finnist þeir þurfa að verja sig og hafi oft verið utangátta í samfélaginu. Þeim finnist að ef þeir verji sig ekki sjálfir, þá muni enginn sjá um það.

Lögreglan hefur haft í mörg horn að líta.
Lögreglan hefur haft í mörg horn að líta. mbl.is/Hari

Hann segir einnig áhugavert að menn séu nú farnir að nota viðurkennda veitingastarfsemi í þeim tilgangi að þvætta peninga. „Það sem er athyglisvert er að þessi starfsemi sé komin inn í atvinnulífið og inn í viðurkennda starfsemi. Erlendis eru þetta pizzustaðir en hjá okkur lítur þetta út fyrir að vera barir og knæpur.“ Helgi bendir á að þeir hópar sem mest neyta fíkniefna séu sömu hópar og verja hvað mestum tíma í skemmtanalífið í miðbæ Reykjavíkur.

„Það bendir margt til þess að þessir staðir séu í tengslum við skemmtanalífið. Fólk á aldrinum 16 til 35 ára er sá hópur sem er mest í þessum efnum samkvæmt mælingum og þetta er einmitt líka sá hópur sem er mest á skemmtistöðum. Þá spyr maður sig hvort skemmtistaðirnir séu að taka þátt í þessu.“

Aðgengi auðvelt

Helgi segir að í þeim rannsóknum sem hann hafi gert og tekið þátt í, bæði hérlendis og á Norðurlöndunum, komi fram að sala eiturlyfja sé mest á netinu og aðgengi að þeim sé mikið og auðvelt.

„Fíkniefnasala er umsvifamikli á Íslandi og mest á netinu. Þeir sem vilja næla sér í efni geta það með auðveldum hætti, í gegnum heimasíður og Facebook-hópa. Ég gerði rannsókn á þessu fyrir nokkrum árum og taldi um 30-40 síður með mörg þúsund meðlimum. Heimasíður með myndum af fíkniefnum og lýsingum á þeim. Þetta er eins og auglýsingin: „Einstök upplifun með Coke“ nema bara þetta eru fíkniefni og annars konar kók.“

Helgi telur að sölumenn fíkniefna hafi þó fært sig af Facebook og noti nú aðra samfélagsmiðla. „Núna hefur fólk fært sig yfir á Telegram, sem er dulkóðað. Þetta er svoleiðis að mínir nemendur, sem hafa rannsakað þetta, hafa komist mjög auðveldlega inn í þessa hópa og það er ekki erfitt að komast inn í þetta fyrir þá sem vilja. Heimsending og opið allan sólarhringinn. Þjónustan er góð.“

Í verslun ÁTVR.
Í verslun ÁTVR. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Það er ekki stór hópur að nota fíkniefni. Samkvæmt mínum rannsóknum hefur þriðji hver landsmaður prófað fíkniefni. Flestir af þeim eru tímabundnir notendur, þar sem neyslan er meira félagsleg og fyrir forvitnissakir. Hins vegar eru virkir neytendur ekki nema lítill hópur sem er kannski 5% af fullorðnu fólki. Það eru kannski 15.000 manns sem er eins og íbúar á Akureyri á meðan virkir notendur áfengis eru nær 200.000 manns.“

Skrifaði bók um notkun fíkniefna á Íslandi

Helgi segir að aðgengi að áfengi hafi aukist hérlendis, þar sem áður hafi vínveitingastaðir verið nokkrir tugir, séu þeir nú nær þremur þúsundum.

„Hefur vandinn versnað í réttu hlutfalli? Ég veit ekki með það. Áfengisvandinn er til staðar en hann hefur ekki vaxið í hlutfalli við aukið aðgengi. Margir tala um að áfengisneysla sé miklu betri en þegar aðgengi að áfengi var minna. Mögulega þurfum við að horfa til þessa þegar horft er til fíkniefnalöggjafarinnar og hvort sé hægt að yfirfæra bjórbannið á hana.

Áfengisneysla hér áður fyrr var miklu verri. Menn fóru mjög illa með áfengi og mikið var verið að drekka landa, sull og óþverra sem engin vissi hver var. Það má ekki gleymast að hér var áfengissveit hjá lögreglunni, eins og fíkniefnasveit og menn sátu inni fyrir smygl og neyslu áfengis. Eftir að bjórbannið var afnumið hefur neysla aukist, það er alveg klárt mál, en ég held að menn séu sammála um að hún sé betri. Fólk drekkur kannski oftar nú, en miklu minna í einu.

Lögreglan í miðbæ.
Lögreglan í miðbæ. mbl.is/Ari

Ég held að ef við myndum yfirfæra þetta á fíkniefni, gæti þróunin orðið sú sama. Eflaust myndu fleiri nota efnin en neyslan gæti verið töluvert betri en hún er í dag. Í dag eru neytendur oft að fela sig í skúmaskotum og þora ekki að koma fram og leita sér aðstoðar eins og fólk gerir í dag með alkóhólisma,“ segir Helgi.

Börn eigi auðveldara með að nálgast harðari efni

„Þeir sem eru að kaupa og selja fíkniefni hafa haft orð á því í þeim viðtölum sem við höfum tekið, tengdum rannsóknum, að það sé auðveldara fyrir börn að nálgast þessi efni en áfengi. Við erum með löggjöf með áfengi, aldur og slíkt, en börn eru orðin svo tölvutengd í dag að þau eiga oft auðveldara með að komast í sterkari efni.“

Helgi segir að bann við notkun efna geri það að verkum að það myndist svartur markaður, eins og áður hafi gerst með áfengi og nú með fíkniefni. Ekki sé greiddur skattur og eftirlit og aðhald sé ekkert.

Mikið líf er á skemmtistöðum miðbæjar.
Mikið líf er á skemmtistöðum miðbæjar. Ljósmynd/Ágúst Ólíver

Helgi segir að margir þeirra sem braski með fíkniefni neyti þeirra einnig.  „Flestir sem eru bæði að kaupa og selja, neyta efnanna líka. Margir eiga í vandræðum með þetta og hafa jafnvel farið í meðferð, líka þeir sem eru að selja þetta.“

Helgi segir að hann sjái ekki fyrir sér að afglæpavæðing muni hafa áhrif á stöðuna.

„Þá er bara spurning með fíkniefnalöggjöfina, hvernig við getum endurskoðað hana til þess að fíkniefni leynist ekki í skúmaskotum og hvernig við getum haft reglubundið eftirlit með þessum efnum.“

Helgi telur að til að koma böndum á fíkniefnamarkaðinn, verði að draga úr reiðufé í hagkerfinu. „Mikið er um reiðufé sem er auðveld leið til að koma fénu frá. Þessi ólöglega brotastarfsemi fer fram mestmegnis í gegnum reiðufé svo maður verður að spyrja sig hvort við viljum ekki bara koma reiðufé út úr hagkerfinu. Það væri allavega ein leið til að hafa mikil áhrif á þennan markað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert