Kom á óvart að hann væri dúx

Útskrift var haldin í gær þar sem 94 nemendur útskrifuðust.
Útskrift var haldin í gær þar sem 94 nemendur útskrifuðust. Ljósmynd/Fjölbrautarskólinn við Ármúla

Útskrift var haldin í gær frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla þar sem 94 nemendur útskrifuðust. 14 nemendur útskrifuðust af tveimur brautum í einu þar sem þeir stunduðu nám við heilbrigðisdeild skólans meðfram stúdentsprófi. Flestir útskrifuðust af félagsfræðibraut eða 16 talsins og 15, eða næst flestir útskrifuðust sem sjúkraliðar.

Ragnhildur Björg Guðjónsdóttir, kynningarstjóri skólans, segir útskriftarhópinn hafa verið fremur fámennan.

„Í skólanum eru um þúsund manns í dagskóla og um tólfhundruð í kvöldskóla. Svo við erum með rúmlega tvöþúsund manns í skólanum. Þetta er frekar fámennur útskriftarhópur í ár þar sem Covid-19 er að hafa áhrif. Margir hægðu á sér eða tóku sér frí í Covid-19 og af því stafar þessi fjöldi.“

Kom á óvart

Símon Tómasson, dúx Fjölbrautarskólans við Ármúla, útskrifaðist með 8,71 í lokaeinkunn af náttúrufræðibraut.

Hann segir það hafa komið sér á óvart þegar tilkynnt var að hann hafi dúxað og hann ætli beint í háskóla, en sé ekki viss hvað hann ætli að læra. Þangað til mun hann starfa hjá Reykjavíkurborg í sumar við garðavinnu.

Símon Tómasson, Dúx ásamt Magnúsi skólameistara og Kristrúnu aðstoðarskólameistara.
Símon Tómasson, Dúx ásamt Magnúsi skólameistara og Kristrúnu aðstoðarskólameistara. Ljósmynd/FÁ

Spurður hvað það sé sem hafi gert hann að dúx skólans segir hann: „Þetta snýst bara um að vera tilbúinn að leggja á sig vinnuna, þetta er bara „hard work“ og að hafa metnað til að læra.“

Símon æfir körfubolta með Val og segir skipulagningu hafa gert sér vel. Vegna íþrótta og tómstunda verði hann að skipuleggja sig betur og það hafi skilað sér.

„Ekki gleyma FÁ“

Magnús Ingvason, skólameistari FÁ, ávarpaði gesti við athöfnina í dag.

„Gildi góðra kennara er aldrei ofmetið og starf þeirra eitt hið vandasamasta í þjóðfélaginu. Kennsla er starf sem miðar að því að vekja og viðhalda áhuga nemenda á námi, veita þeim handleiðslu á fjölbreyttan hátt og stuðla að því að hver og einn einstaklingur blómstri. Góður kennari væri gulls ígildi,“ sagði Magnús í ávarpi sínu.

„Munið líka að hamingja er ekki áfangastaður, heldur hluti af vegferðinni. Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með áfangann og ekki gleyma FÁ.“

Hópur útskriftarnema.
Hópur útskriftarnema. Ljósmynd/FÁ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert