Litlar hópsýkingar apabólu gætu brotist út

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólíklegt er að „stór faraldur“ apabólu brjótist út hér á landi með „víðtækum alvarlegum afleiðingum“, að sögn sóttvarnalæknis. Líkur eru þó á að smit berist hingað til lands í ljósi útbreiðslu apabólusmita í Evrópu. Jafnvel eru líkur á að litlar hópsýkingar brjótist út hér á landi.

„Berist sjúkdómurinn hingað er nauðsynlegt fyrir almenning að vera upplýstur um sjúkdóminn, smitleiðir, áhættuhegðun og persónubundnar sóttvarnir til að lágmarka útbreiðslu hér á landi. Þeir sem hafa einkenni og grun um sjúkdóminn eru hvattir til að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna varðandi greiningu. Heilbrigðiskerfið er að undirbúa sín viðbrögð, móttöku sjúklinga, greiningu og hugsanlega meðferð,“ segir í tilkynningu frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á heimasíðu embættis landlæknis.

Einangrun nauðsynleg þar til útbrot hafa gróið

Hann hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning með upplýsingum um apabólu og viðbrögð.

„Veikindin eru venjulega væg og meðferð því fyrst og fremst stuðningsmeðferð en hinn sýkti þarf hins vegar að vera í einangrun þangað til útbrotin hafa gróið. Það ferli getur tekið allt að 4 vikur þó 2–3 vikur sé algengast. Þeir sem hafa verið í nánd við smitaðan einstakling og teljast því útsettir þurfa að halda sig sem mest til hlés í 3 vikur (smitgát) þangað til sýking hefur verið útilokuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert