Skrýtið að þurfa árum saman að réttlæta formið

Oddur Eysteinn fagnar umræðu um myndlist og tók því ekki …
Oddur Eysteinn fagnar umræðu um myndlist og tók því ekki illa þegar blaðamaður sló á þráðinn hjá honum á höttunum eftir viðbrögðum. Samsett mynd/Sigurður Unnar/Nói Síríus

Listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, sem er þekktur undir listamannsnafninu Odee, hefur verið sakaður um myndstuld í klippimynd sem hann skapaði fyrir nýjar umbúðir fyrir Opal sem selt er til styrktar Einstökum börnum. Oddur fagnar umræðu um myndlist en segir skrýtið að þurfa í mörg ár að réttlæta listformið sem hann notar: Klippimyndir. 

„Klippimyndalist er þekkt listform og margir af okkar þekktustu myndlistarmönnum hafa lagt stund á þetta,“ segir Oddur í samtali við mbl.is. Hann nefnir Erró og Andy Warhol sem dæmi um þá listamenn sem hafa stundað klippimyndalist. 

Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson listamaður birti færslu um málið á Facebook-síðu sinni í gær. Þar gagnrýndi hann aðferð Odds. Fréttablaðið sagði fyrst frá gagnrýninni og meintum myndstuldi.

„Gaman væri að sjá frá Odd koma með beittari klippimyndir á „vinsællari efni“ úr „vinsælli menningu“ í staðinn fyrir að nýta sér strit, púl og puð ungra listamanna af netinu,“ skrifaði Sigmundur m.a.

„Ég er náttúrulega bara að skapa nýtt sjálfstætt verk“

Eru eitthvað óskýrar línur í þessu?

„Ég sé ekki að það sé neinn munur á því að tjá sig myndrænt um litla eða stóra aðila,“ segir Oddur við því.

Á umbúðunum sem Oddur skapaði er til að mynda að finna verk eftir Anthony Jones og Becky Cloonan.

Telur þú þig vera í fullum rétti með þetta verk?

„Ég er náttúrulega bara að skapa nýtt sjálfstætt verk,“ segir Oddur um það.

Biður fólk almennt um leyfi fyrir því að nota myndir í svona klippimyndalist?

„Ég þekki það ekki, ætli það sé ekki bara allur gangur á því.“

Finnst umræðan ekki endilega koma illa út fyrir hann

Skilurðu að einhverju leyti að listamennirnir séu ósáttir við þessa notkun?

„Það er ekki hægt að geðjast öllum með list. Fólk hefur skoðanir á myndlist sem er bara allt í lagi. Það er alltaf áhugavert þegar umræður skapast um myndlist í rauninni.“

Oddur segir að klippimyndalist geti verið umdeild og að það sé í góðu lagi að ræða hana. 

Svo þú ert ekkert endilega andstæður þessari umræðu þó að hún komi illa út fyrir þig?

„Nei og mér finnst hún ekkert endilega koma illa út fyrir mig. Fólk má alveg hafa sína skoðun á myndlist. Ég fagna umræðu um myndlist almennt,“ segir Oddur og bætir við að lokum:

„Ég hef svo oft svarað fyrir svona í gegnum árin. Það er skrýtið að þurfa í mörg ár að réttlæta listformið sitt. Þetta er ákveðið virðingarleysi fyrir klippimyndalist.“

mbl.is