Töluvert um ölvun og „samkvæmishávaða“

Íslendingar nutu þess í gærkvöldi að frídagur sé í dag.
Íslendingar nutu þess í gærkvöldi að frídagur sé í dag. mbl.is/Ari

Líklegt verður að teljast að allnokkrir höfuðborgarbúar muni ekki stíga upp úr rúminu að óþörfu á þessum uppstigningardegi enda var mikið um veisluhöld í gærkvöldi ef marka má reynslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregluþjónar hennar sinntu nokkuð mörgum útköllum í nótt vegna ölvunar og „samkvæmishávaða á öllu höfuðborgarsvæðinu“, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Þar segir sömuleiðis að fjórum sinnum í gærkvöldi og í nótt hafi ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá bárust tilkynningar um þrjú óhöpp sem rafhlaupahjólum tengjast. 

Endaði óheppilega

Laust fyrir tvö í nótt barst lögreglu þannig tilkynning um að einstaklingur hefði dottið af rafhlaupahjóli í miðbæ Reykjavíkur. Um tíu mínútum síðar barst lögreglu tilkynning um rafhlaupahjól sem ekið hafði verið á kyrrstæða bifreið. „Ökumaður rafhlaupahjólsins hélt sína leið eftir viðræður við lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu. Um svipað leyti barst þriðja tilkynningin en þá höfðu tveir einstaklingar í Vesturbæ Reykjavíkur deilt rafhlaupahjóli, misst jafnvægið og dottið í jörðina.

„Báðir einstaklingarnir voru fluttir á bráðamóttöku til skoðunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert