Vissu ekki að Odee ætti ekki teikningarnar

Auðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Nóa Síríus segir ekki hafa verið vitneskju …
Auðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Nóa Síríus segir ekki hafa verið vitneskju innan fyrirtækisins að teikningarnar væru ekki eign listamannsins sem hannaði umbúðirnar.

Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Nóa Síríus, segir fyrirtækið ekki hafa vitað að listin sem notuð er á nýjum Ópal pakkningum væri ekki eign listamannsins Odds Eysteins Friðrikssonar, Odee. Oddur hannaði pakkningarnar og gaf vinnu sína til styrktar Einstökum börnum og hafði því ekki hagnað af.

Mikil umræða hefur verið um nýjar pakkningar á Ópal sem framleiddar eru til styrktar Einstökum börnum, stuðningsfélags barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni. Er verkefnið góðgerðarstarf þar sem sala slíkra pakka rennur til Einstakra barna.

Á pakkningunum er samsett mynd þar sem klipptar hafa verið saman nokkrar myndir af framandi fígúrum. Kallast listformið ýmist clip-art (klippimyndir) eða pop-art og hafa listamenn á borð við Andy Warhol, Roy Liechtenstein, Erró og Sigurður Sævar getið sér gott orð við notkun þess. Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson listamaður gagnrýndi verkið í Facebook-færslu þar sem hann kallaði gjörninginn myndstuld.

Þar gagnrýndi hann verkið og sagði listamanninn Odee skreyta sig fjöðrum annarra ungra lítt þekktra listamanna. Gagnrýndi hann þar vanvirðingu við höfundarrétt listamanna, sem sé ekki metið umfram tjáningarfrelsi annarra listamanna.

Sagði hann vera mikinn mun á list Warhol og Liechtenstein sem „blanda saman efni úr vinsælli menningu til þess að skapa ný sjálfstæð listaverk," en segir Odd nota verk ungra listamanna sem hann safni saman í eigin möppu án þess að segja frá uppruna þeirra.

Fígúrurnar á myndunum.
Fígúrurnar á myndunum.

Nói Síríus vissi ekki að verkin væru erlend

„Nei við vissum ekki að þetta væru verk eftir aðra listamenn. Hinsvegar ætla ég bara að vísa til hans þegar kemur að umræðunni um clip art, þetta er ekki mitt sérsvið,“ segir Auðjón í samtali við mbl.is.

Áður hafa komið upp mál þar sem Odee var ásakaður um liststuld og segir Auðjón fyrirtækið ekki hafa vitað af því en Oddur hafi síðan þau mál komu upp, hreinsað þau og komist að samkomulagi við viðkomandi listamenn.

Segir hann að fyrirtækið ætli ekki að blanda sér í umræðu um „hvað sé list“ eða hvers konar gjörningar séu list í raun. Listamenn þurfi að eiga þau samtöl sín á milli og leysa slík mál. Þetta sé umræða sem sé ekki sitt sérsvið.

Síðan málið kom upp hefur einn listamannanna sem teiknaði fígúru í mynd Odee tjáð sig um málið í Instagram færslu þar sem hann kallar Odd illum nöfnum. Segir hann Odd reyna að græða á annarra manna list.

Aðspurður hvort Nói Síríus hyggist halda eftir greiðslu til Odds segir Auðjón: „Odee vann verkið í sjálfboðastarfi þar sem hann tengist hópnum sem við erum að styrkja. Hann hefur unnið í sínum verkum með vörumerkið Ópal og við höfum notið þess að vinna með honum. Okkur finnst pakkningarnar fallegar og verkefnið gott og við erum sátt með útkomuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert