„Ég er ekki gagnslaus“

Iryna afhendir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, stuttermabolinn og sýnir …
Iryna afhendir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, stuttermabolinn og sýnir honum táknin í mynstrinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úkraínska listakonan Ірина Камєнєва, eða Iryna Kamienieva, neyddist til að flýja til Íslands eftir að stríð braust út í heimalandi hennar. Hún hefur upplifað mikinn kvíða og vonleysi síðastliðnar vikur, vitandi af fjölskyldu sinni, vinum og ættingjum í heimalandinu. 

Í dag kvað þó við annan tón, þegar hún afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, bol sem hún hannaði sjálf ásamt Þórdísi Claessen, og er hluti af átaksverkefni sem er til styrktar UN Women í Úkraínu.  

UN Women á Íslandi og 66°Norður standa að baki átaksverkefninu en allur ágóði af sölunni rennur til Úkraínu. Fyrsta upplag framleiðslunnar mun telja um 500 boli og ef það selst upp munu fimm milljónir króna safnast.

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni. Þetta var mjög góður stuðningur fyrir mig persónulega en ég hef verið mjög kvíðin og liðið eins og ég geti ekki komið til hjálpar. En í gegnum verkefnið hef ég getað minnt sjálfa mig á að ég er að taka þátt og ég er að hjálpa. Ég er ekki gagnslaus,“ segir Iryna í samtali við mbl.is

„Þetta hjálpaði mér stundum að komast í gegnum daginn.“

Ísland öruggasti kosturinn

Iryna, sem kemur frá litlum bæ í grennd við Kænugarð, var stödd í Póllandi ásamt kærasta sínum þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu í lok febrúar. Henni varð fljótt ljóst að hún gæti ekki snúið til síns heima þar sem það væri ekki öruggt. 

Parið taldi ekki skynsamlegt að vera lengi í Póllandi í ljósi þess að stríður straumur flóttafólks var á leið til landsins og pólska ríkið ætti sennilega eftir að eiga erfitt með að halda slíkum fjölda uppi.

Eftir að hafa skoðað vel þá kosti sem voru í stöðunni, tóku þau ákvörðun um að koma til Íslands. Þótti það skynsamlegast, ekki síst vegna fjarlægðarinnar sem er milli Íslands og Úkraínu. 

„Fólk í Póllandi og Ungverjalandi upplifir sig ekki lengur öruggt. Við vitum ekkert hvað mun gerast á morgun, hvort Rússland gerir árás á önnur lönd eða ekki.“

Hún segist hafa fengið mikinn stuðning eftir komuna og að þetta sé einn öruggasti staður til að vera á um þessar mundir.

Bolurinn hafi verndargildi

UN Women höfðu samband við Irynu eftir að hafa frétt af listasýningu hennar hér á Íslandi. Hún var fengin til liðs við listakonuna Þórdísi Claessen, sem starfaði lengi fyrir 66° Norður

Þórdís segir samstarfið hafa gengið afar vel. Hún segir heiður að hafa fengið að taka þátt í verkefninu og fá innsýn inn í úkraínska menningu. 

Ferlið hafi reynst afar lærdómsríkt, ekki síst þegar Iryna fræddi hana um allar merkingarnar á bakvið mynstrin og táknin en hönnun bolsins er innblásin af úkraínska þjóðbúningnum.

Listakonurnar Þórdís Claessen og Iryna afhenda forseta Íslands eintak af …
Listakonurnar Þórdís Claessen og Iryna afhenda forseta Íslands eintak af bolnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framan á bolnum má sjá Vys­hy­vanka mynstur, sem er táknmynd fyrir vernd.

„Vyshyvanka hefur mjög öfluga merkingu í sjálfu sér, mynstrið á að vernda eigandann frá öllu illu. Bara það að klæðast bolnum veitir ákveðna vernd,“ segir Iryna.

Ef rýnt er nánar í myndina má einnig sjá önnur mynstur sem standa meðal annars fyrir samheldni, fjölskylduna, karla og konur.

Veiti fólki kraft

Á bakhlið bolsins má svo sjá hluta úr ljóði eftir úkraínska skáldið Lesiu Ukrainku sem Iryna segir vera mjög sterka kvenfyrirmynd.

„Þessi hluti ljóðsins fjallar um að vera sterkur í gegnum erfiða tíma. Hún segir að hún muni halda áfram að elska, jafnvel þótt tárin falli, hún muni halda áfram að syngja lög þótt hún sé umkringd illsku og hún muni halda áfram að lifa, sama hvað gerist. Við trúum því að þessi skilaboð muni veita þeim kraft sem klæðast bolnum og jafnvel til þeirra sem að munu hljóta vernd vegna átaksins,“ segir Iryna.

Frá athöfninni á Bessastöðum í dag.
Frá athöfninni á Bessastöðum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is