Eldgosatímabil næstu aldirnar

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það kemur nú gos á endanum, bara spurning um hvenær“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, þegar hann var spurður út í jarðskjálftahrinur síðustu daga og mánuði á Reykjanesskaganum og bætir við að við séum komin inn í eldgosatímabilið.

„Hvað er „normal“ og hvað er ekki „normal“ er alltaf stór spurning. Virknin á Reykjanesskaga einkennist af þessum tímabilum þar sem það er engin eldvirkni í langan tíma, eða 600 til 1000 ár. Svo koma tímabil sem eru eldgosatímabil sem eru 200 til 400 ára löng,“ segir hann. Hann segir að oft þegar að eitt gos kemur þá geta komið tvö til þrjú í röð og svo kemur pása.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komið til að vera næstu aldirnar

Spurður hvort eldgosið við Fagradalsfjall í fyrra hafi markað upphafið á þessu gostímabili segir hann að það sé rétt. Hann segir hins vegar að slíkt eldgosatímabil þýði ekki að Reykjanesskaginn verði óíbúðarhæf.

„Fólk gerði það hérna áður fyrr. Auðvitað veldur þetta einhverjum óþægindum og truflunum og öllu slíku. Brennisteinsmengunin getur verið óþægileg fyrir fólk. Hugsanlegt gjóskufall getur valdið truflunum og ef gos er mjög nálægt byggð þá getur hraunflæðið valdið skemmdum á bæði innviðum og húseignum. Það eru möguleikar á slíku ef gos verða á ákveðnum stöðum,“ segir hann en hann telur að fólk verði að vera undirbúið fyrir þessum veruleika enda er þetta komið til að vera næstu aldirnar.

Ferðamannaiðnaðurinn gæti orðið fyrir áhrifum

Hann segir að mannlíf eigi ávallt að vera í fyrirrúmi og að það þurfi að vera hægt að koma fólki undan með öruggum hætti. Þá bendir hann á að gæta þurfi að innviðum sem og að hefja þurfi umræðu um hvað yrði gert ef að Suðurstrandarvegur og Keflavíkurvegur yrðu klipptir í burtu af hrauni, en slíkt myndi hafa alvarleg áhrif fyrir ferðamannaiðnaðinn.

„Mér finnst þetta eiga að vera almenn umræða í samfélaginu,“ segir hann, en hann telur umræðuna vera mikilvæga og að slík ákvörðun eigi ekki að vera í höndum fárra. Hann nefnir sem dæmi að ef ákvörðun yrði tekin um að byggja annan alþjóðlegan flugvöll þá yrði að vera samfélagsleg sátt um ákvörðunina. Þorvaldur telur brýnt að umræðan hefjist í þjóðfélaginu og ráðist verði í hana af krafti, enda óskynsamlegt að hefja hana þegar að gostímabilið er hafið.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að eldgosið við Fagradalsfjall hafi markað upphafið á nýju gostímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert