Flestir til Grikklands, Nígeríu og Ítalíu

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

Framkvæmd frávísana á landinu hefur verið háð miklum takmörkunum vegna sóttvarnarreglna á landamærum móttökuríkja undanfarin tvö ár. 

Grikkland hefur nýlega afnumið slíkar reglur en önnur lönd, þar á meðal Ítalía, eru enn með takmarkanir í gildi og stendur því ekki til að hefja undirbúning fylgda til Ítalíu að svo stöddu.

Þá stendur ekki heldur til að fylgja fólki sem hér dvelur, til Ungverjalands nema í samráði við stjórnvöld þar í landi en Ungverjaland hefur opinberlega lýst yfir neyðarástandi í málefnum flóttamanna samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra.

Að því virtu er lögregla aðeins að vinna að því að hafa upp á þeim einstaklingum sem eiga að fara til Grikklands. 

Listi stoðdeildar með verkbeiðnum frá Útlendingsstofnun hefur tekið þó nokkrum breytingum að undanförnu þar sem töluverður fjöldi fólks hefur fengið mál sitt endurupptekið hjá Útlendingastofnun vegna langrar veru í landinu.

Hundrað og tveir á leið úr landi

Heildarfjöldi á verkbeiðnalista miðað við núverandi stöðu er 197 manns.

Þar af hefur hundrað og tveimur einstaklingum verið synjað um vernd við efnislega meðferð umsóknar og bíða þess að vera fylgt til heimalands.

Tuttugu og níu bíða endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og fimmtíu og einn bíður endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli þess að njóta þar þegar alþjóðlegrar verndar.

Fimmtán einstaklingum á listanum hefur verið gert að yfirgefa landið eftir að hafa fundist hér í ólögmætri dvöl.

Þrjátíu og sjö undir lögaldri

Af þeim sem bíða endursendingar vegna verndar í öðru landi eiga fjörutíu og fjórir einstaklingar að fara til Grikklands, samkvæmt tilkynningu frá Útlendingastofnum.

Tvær fjölskyldur með börn eru í þeim hópi en ljóst er að þeim verður ekki fylgt úr landi þar sem réttur til efnislegrar meðferðar stofnast á næstu dögum vegna langrar dvalar þeirra í landinu.

Stoðdeild er því á þessari stundu ekki að undirbúa neinn flutning á börnum eða fjölskyldum þeirra til Grikklands.

Þrjátíu og sjö einstaklingar, sem verður fylgt úr landi, eru undir átján ára aldri og meðalaldur þeirra sem vísa á úr landi er 28 ára. 

Flestir frá Nígeríu

Til stendur að senda fjörutíu og átta einstaklinga úr landi frá Nígeríu, þrjátíu og fjóra frá Írak, fimmtán frá Palestínu og tíu frá Pakistan.

Frá Afganistan eru átta einstaklingar sem verður vísað úr landi, sjö frá Sómalíu, sjö frá Albaníu  og sex frá Gíneu.

Sex frá Marokkó, sex frá Venesúela og fimm frá Makedóníu, en fjörutíu og fimm einstaklingar með annað ríkisfang bíða sömu örlaga. 

Grikkland, Nígería og Ítalía

Flestir verða sendir til Grikklands, eða alls fjörutíu og fjórir.

Nígería er þá næst stærsta móttökulandið, en þrjátíu einstaklingar á verkbeiðnilista lögreglu verða sendir þangað, að öllu óbreyttu. Ítalía tekur svo á móti tuttugu og þremur einstaklingum þegar að því kemur.

Þá verða þrettán sendir til Írak, tólf til Ungverjalands og átta til Pakistan. 

Sjö til Albaníu og sjö til Gíneu, fimm til Marokkó og fimm til Makedóníu. Þá verða fjörutíu og þrír einstaklingar sendir til annarra landa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert