Margir elta sólina um helgina

Búast má við að mikið verði að gera í sundlauginni …
Búast má við að mikið verði að gera í sundlauginni á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gististaðir á Norður- og Austurlandi eru meira og minna fullbókaðir um helgina. Spáin er góð um allt land en sérstaklega á Norðurlandi. Á Akureyri, er gert ráð fyrir 13 stiga hita á laugardag og 19 stiga hita á sunnudag.

Fjóla Hermannsdóttir Tarnow, hótelstjóri Apótek gistiheimilis og Centrum hótels, segir að fullbókað sé á báðum stöðum. Á meðal þeirra sem hafa bókað eru ýmist Íslendingar eða erlendir ferðamenn.

„Það eru Íslendingarnir sem elta sólina en erlendir ferðamenn eru frekar með bókaðar ferðir,“ segir hún en þeim hefur mjög svo fjölgað síðan í fyrra. „Við erum bjartsýn fyrir sumrinu og líka haustinu. Þetta er búið að vera frábært í maí. Það vantar bara starfsfólk,“ segir Fjóla.

Staðirnir hafa gripið til þess að flytja inn starfsfólk frá Spáni og Portúgal til þess að halda öllu gangandi.

Erlendir ferðamenn bókað vel fyrir fram

Þá leggja margir leið sína á Fosshótel Húsavík um helgina en þar er nánast fullbókað.

„Það er nánast fullbókað hjá okkur, þannig að fólkið verður í góða veðrinu,“ segir þjónustufulltrúi hótelsins.

Margir Íslendingar hafa bókað þar í bland við erlenda ferðamenn sem hafa margir hverjir bókað vel fyrir fram.

Útlit er fyrir gott veður um helgina á Austur- og Suðausturlandi og gæti hiti farið í 19 stig á Kirkjubæjarklaustri á sunnudag en 14 stig á Seyðisfirði.

Vaktmaður á Hótel Öldu segir að fullbókað sé á sunnudaginn hjá hótelinu en eitthvað sé laust á laugardaginn. Að sama skapi er um að ræða erlenda ferðamenn en einnig Íslendinga, sem flestir nýta sér gjafabréf hjá staðnum sem þeim hafa áskotnast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert