Mikil uppbygging í Hraunbænum

Mikil uppbygging er í hverfinu.
Mikil uppbygging er í hverfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdir eru í fullum gangi við byggingu fjölbýlishúsa sem Bjarg íbúðafélag lætur reisa við Hraunbæ í Reykjavík. Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar til útleigu í lok árs 2022.

Samkvæmt upplýsingum Sigurðar H. Örnólfssonar, verkefnastjóra hjá Bjargi, eru Íslenskir aðalverktakar að byggja þrjú hús á lóðinni Hraunbær 133, alls um 5.680 fermetra. Þar verða 64 íbúðir í 2-5 hæða byggingum með fjórum stigagöngum. Að jafnaði vinna núna 25-30 manns við uppbyggingu á lóðinni.

Uppbygging á landræmu

Á næstu lóð fyrir austan, Hraunbæ 143, er byggingafélagið Húsvirki að byggja fjölbýlishús. Þar verða íbúðir sem verða seldar á almennan markað.

Enn austar við Hraunbæinn, á lóðinni númer 153-163, byggði Bjarg áður 99 íbúðir í fjórum 2-5 hæða byggingum með sex stigagöngum. Þær íbúðir eru allar í útleigu.

Upp úr miðri síðustu öld voru byggð fjölmörg íbúðarhús við Hraunbæ. Árið 1990 hófst uppbygging á landræmu milli Hraunbæjar og Bæjarháls. Þegar þeim framkvæmdum sem nú standa yfir lýkur, verður þessi landræma fullbyggð.

Bjarg íbúðafélag var stofnað árið 2016. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum í júní 2019. Bjarg íbúðafélag byggir íbúðir um allt land.

Í september í fyrra var því fagnað að Bjarg afhenti 500. íbúð félagsins rétt um tveimur árum eftir að fyrstu íbúarnir fengu íbúðir sínar afhentar.

Fram kemur í fréttatilkynningu á heimasíðu félagsins hinn 6. maí sl. að Reykjavíkurborg hafi þegar veitt Bjargi lóðarvilyrði fyrir um 210 íbúðum á fjórum lóðum sem fara í byggingu á næstu misserum.

Borgarráð samþykkti einnig tillögu um vilyrði fyrir allt að 190 íbúðum á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2022-2024. Því til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing fyrir allt að 505 íbúðum, sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2024-2028. Bjarg geti því á næstu árum byggt allt að 905 íbúðir á 17 reitum sem eru staðsettir víða í borginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert