Mögulegt að dreifa greiðslum opinberra gjalda á netinu

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný sjálfsafgreiðsluþjónusta á Ísland.is gerir notendum kleift að gera greiðsluáætlun og dreifa greiðslum opinberra gjalda á þeim stað og tíma sem þeim hentar.

Sem dæmi geta notendur sjálfir gert áætlanir um greiðslu flestra gjalda, svo sem skatta og önnur gjöld, undir fjármálum á Ísland.is.

Vakin er athygli á þessari nýbreytni á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur einnig fram að á hverju ári hverju séu gerðar á bilinu 17.000 – 20.000 greiðsluáætlanir og ferlið hafi í för með sér talsverða handavinnu, bæði fyrir notendur sem og starfsmenn innheimtumanna ríkissjóðs. Með þessari nýju þjónustu sé dregið verulega úr þeirri handavinnu og áætlunin gerð sjálfkrafa og birt bæði í pósthólfinu sem og Mínum síðum á Ísland.is.

Nú um mánaðamótin geta einstaklingar dreift skuldum sínum sjálfir en stefnt er að því að fyrirtæki geti gert slíkt hið sama síðar á árinu.

„Ég hef áður sagt að hið opinbera eigi að vera meira eins og snjallsími – aðgengilegur vettvangur fyrir þjónustu, upplýsingar og aðstoð við daglegt líf. Við höfum náð miklum árangri undanfarið og þetta skref er einn liður í því. Í stað tímafrekra símtala og samskipta við ríkisstofnun er málið einfaldlega leyst með nokkrum smellum, með tilheyrandi hagræði fyrir alla sem að því koma,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert