Ósannaðar fullyrðingar að mati Neytendastofu

Frá Tenerife.
Frá Tenerife. Ljósmynd/booking.com

Fyrirtækið Aventuraholidays braut gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu að mati Neytendastofu. 

Stofnunin fékk ábendingu vegna auglýsingarinnar þar sem auglýst er gisting á Tenerife og birtist auglýsingin í Morgunblaðinu 4. september 2021. Í ábendingunni voru gerðar athugasemdir við verðlækkun sem kynnt var í auglýsingunum og við fullyrðingarnar „Besta verðið til Tenerife í vetur“ og „Aventura tryggir þér bestu hótelin á Tenerife á miklu betra verði.“

Fullyrðingarnar sem þarna voru settar fram í efsta stigi þóttu ósannaðar að mati Neytendastofu. Í 6. grein laganna stendur: „Fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum eða með öðrum hætti þarf fyrirtæki að geta fært sönnur á.“

Í úrskurði Neytendastofu varðandi þetta atriði segir:

„Aventuraholidays ehf., Sundagörðum 2, 104 Reykjavík, hefur með birtingu fullyrðinganna „Besta verðið til Tenerife í vetur“ og “Aventura tryggir bestu hótelin á Tenerife á miklu betra verði“ án fullnægjandi sönnunar brotið gegn ákvæðum 4. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og b. liðar 1. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Með vísan til 2. mgr. 21. gr. c. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, er Aventuraholidays ehf. bannað að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti.

Bannið tekur gildi við móttöku ákvörðunar þessarar. Verði ekki farið að banninu má búast við að tekin verði ákvörðun um sektir á grundvelli IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.“

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að sýnt hafi verið fram á að verðlækkunin væri raunveruleg og því væri ekki tilefni til athugasemda hvað það varðar.

„Við mat á því hvort fullyrðingarnar væru sannar taldi Neytendastofa mikilvægt að horfa til þess að verðsamanburðurinn miðaðist allur við ferðir Aventuraholidays með 30.000 kr. auglýstum afslætti sem hafi verið skilyrtur og tímabundinn en fullyrðingarnar voru settar fram sjálfstæðar og ekki í tengslum við verðlækkunina. Þá væri verð Aventuraholidays án afsláttarins hærra en verð samkeppnisaðila í einhverjum tilvika. Hvað varðaði fullyrðingar um bestu hótelin þá hefði Aventuraholidays vísað til þess að félagið bjóði upp á sum þekktustu hótel Tenerife sem hafi hæstu einkunnir í gæðamati á hótelum en ekki lagt fram gögn eða skýringar um það. Fullyrðingarnar væru í efsta stigi lýsingarorðs og án fyrirvara eða skýringa og gera yrði strangar kröfur til sönnunar þeirra. Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar því ósannaðar og til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um viðskipti og því villandi,“ segir í rökstuðningi Neytendastofu. 

mbl.is