Þríhyrningur um loftin blá

Kristinn Elvar Gunnarsson flugstjóri við stjórnvölinn á flugvél Norlandair.
Kristinn Elvar Gunnarsson flugstjóri við stjórnvölinn á flugvél Norlandair. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Eftir flugtak til norðurs frá Akureyrarflugvelli er tekið bratt klifur til norðurs og yfir Pollinn. Kominn í 2.600 feta hæð beygir flugstjórinn vélinni, Twin Otter TF POF, til hægri og setur stefnuna á Vaðlaheiði. Hér blasa við Svalbarðaströnd og Eyjafjarðarsveit og þegar komið er yfir háheiðina sést inn Fnjóskadal. Vor er í Vaglaskógi, eins og ort var forðum, og allt orðið grænt. Í innstu dölum er hins vegar snjór yfir og raunar svo langt sem augað eygir inn á öræfin. En eins og gjarnan gerist á vordögum er loftið tært og sólargeislarnir sterkir. Þegar svo er flogið rétt sunnan við Mývatn í 9.000 fetum sést Herðubreið, drottning íslenskra fjalla með hvíta húfu sem fer henni ósköp vel.

Fimm daga í viku

Norlandair heldur uppi reglulegum ferðum frá Akureyri til Vopnafjarðar og Þórshafnar með flugi fimm daga vikunnar. Flugið er ríkisstyrkt og þarf að vera; loftbrúin er mikilvæg fyrir afskekkt svæði.

„Þetta er skemmtileg flugleið og ég hlakka til hverrar ferðar. Oft getur flug hérna þó verið krefjandi á veturna, þegar allra veðra er von. En einmitt í slíkum ögrunum felast töfrarnir við innanlandsflugið og þjónustu við dreifbýlið,“ segir Kristinn Elvar Gunnarsson flugstjóri. Hann hefur starfað hjá Norlandair frá 2007 og er kominn með þúsundir flugtíma á Twin Otter og King Air; vélunum sem félagið er með í útgerð.

„Twin Otter er sterkbyggð vél og traust. Hentar vel til dæmis í Þríhyrningnum eins og við köllum þessa áætlunarrútu á norðausturhorninu,“ segir Kristinn flugstjóri sem – kominn yfir Hólsfjöll – lækkar flugið. Rennir niður í Vopnafjörðinn sem fagurblá Hofsá klýfur endilangan.

Á langri lokastefnu

Í sjónflugi á langri lokastefnu að Vopnafirði er stefnan sett á braut 04, rennt mjúklega inn á braut og ekið að flugstöðinni. Vaskir Vopnfirðingar afgreiða flugvélina og eru snöggir. Þetta er fljótgert, að frátöldum blaðamanni er aðeins einn farþegi og fraktin ekki mikil. Moggi dagsins er í pakka og blaðberinn inni í þorpi, þess albúinn að byrja dreifingu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Norlandair heldur uppi reglulegum ferðum frá Akureyri til Vopnafjarðar og …
Norlandair heldur uppi reglulegum ferðum frá Akureyri til Vopnafjarðar og Þórshafnar með flugi fimm daga vikunnar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ratsjárstöð NATO á Gunnólfsvíkurfjalli við Langanes.
Ratsjárstöð NATO á Gunnólfsvíkurfjalli við Langanes. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Skjáir vísa leiðina og sýna stöðuna.
Skjáir vísa leiðina og sýna stöðuna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Flugsýn yfir Vopnafjörð; kauptúnið á Kolbeinstanga.
Flugsýn yfir Vopnafjörð; kauptúnið á Kolbeinstanga. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Þórshöfn; þorpið við Þistilfjörð.
Þórshöfn; þorpið við Þistilfjörð. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »