Um hundrað fleiri leigubílar verði til taks

Hér má sjá hina víðfrægu leigubílaröð við Lækjargötu.
Hér má sjá hina víðfrægu leigubílaröð við Lækjargötu. mbl.is/Ari

Þeir sem stunda næturlífið í Reykjavíkurborg geta eflaust glaðst en Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur tekið ákvörðun um að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubifreiðaakstur um hundrað á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, eða á takmörkunarsvæði I. 

Þetta mun að öllum líkindum hafa áhrif á bið fólks eftir leigubílum, sem þykir ekki alltof skemmtileg, þar sem fleiri leigubílar munu vera til taks.

Breytingarnar eru gerðar til að koma til móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu á leigubifreiðamarkaði. Um er að ræða mestu fjölgun atvinnuleyfa í einu frá því að lög um leigubifreiðar voru sett árið 2001, að því er fram kemur í tilkynningu innviðaráðuneytisins.

Breytingin mun taka gildi á næstu dögum, en þegar það gerist munu atvinnuleyfin á takmörkunarsvæði I verða 680 talsins.

mbl.is