„Við höfum alveg jafn miklar skoðanir og þið“

Vilhjálmur Hauksson ræddi við Salvöru Nordal umboðsmann barna.
Vilhjálmur Hauksson ræddi við Salvöru Nordal umboðsmann barna. mbl/ Hákon Pálsson

Mannréttindi, skólamál og umhverfismál eru þeir þrír málaflokkar sem börnin á barnaþingi lögðu áherslu á, að sögn Salvarar Nordal, umboðsmanns barna. 

„Þarna eru gríðarmargar tillögur úr öllum þessum málaflokkum.“

Hún, ásamt ungum fulltrúum úr ráðgjafaráði umboðsmanns barna, afhentu í dag ríkisstjórninni skýrslu af barnaþingi sem haldið var í mars 2022. 

Af nógu að taka

Barnaþing er haldið annað hvert ár, en síðasta haust var því frestað sökum heimsfaraldursins. Því eru nú liðin þrjú ár frá afhendingu síðustu skýrslu. Næsta þing verður strax á næsta ári. 

„Það er af nógu að taka og það er líka mjög mikilvægt að gefa börnunum tækifæri til að setja þau mál á dagskrá sem þau vilja ræða.“

Salvör segir ráðamenn hafa sýnt barnaþinginu mikinn áhuga og margir þingmenn mætt og rætt við börnin. „Það í sjálfu sér skiptir mjög miklu máli.“

Þá bendir hún á að ráðamenn vitni oft í skýrslur sem Barnaþing hefur unnið og því ljóst að börn hafa áhrif. 

Hún vill sjá markvisst unnið með tillögurnar í stjórnkerfinu. 

Ríkisstjórnin fékk afhenta skýrsluna að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Ríkisstjórnin fékk afhenta skýrsluna að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Katrín bað fulltrúa afsökunar

„Mér finnst ríkisstjórnin vera að gera vel með því að hlusta á okkur og taka mark á því sem við segjum. Ef þið skoðið skýrsluna þá sjáið þið kannski að við höfum alveg jafn miklar skoðanir og þið,“ sagði Þórey María Kolbeinsdóttir, fulltrúi úr ráðgjafaráði. 

„Mér finnst gaman að sjá að ríkisstjórnin hefur áhuga á að gera landið betra fyrir okkur börnin,“ segir Vilhjálmur Hauksson, fulltrúi úr ráðgjafaráði umboðsmanns barna. 

Vilhjálmur er í hjólastól, en það er enginn hjólastólarampur upp stigann við innganginn að ráðherrabústaðnum, þar sem afhendingin fór fram.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra baðst afsökunar á þessu og sagði að átak væri í gangi í þessum efnum, en staðan í mörgum opinberum byggingum væri ekki nógu góð. 

„Mér finnst vanta aðgengi en mér finnst gott að heyra að það sé verið að gera eitthvað í þessu. Það ætti náttúrlega að vera löngu búið að gera eitthvað.“

Þess ber að geta að yfirleitt er rampur bakdyramegin við ráðherrabústaðinn, en vegna viðgerða var hann ekki til taks í dag.

Fulltrúar ræddu við blaðamann að lokinni afhendingu.
Fulltrúar ræddu við blaðamann að lokinni afhendingu. mbl.is/Hákon Pálsson

Ekki alla undir sama hatt

Brynja Thorlacius, annar fulltrúi ráðgjafaráðs, kveðst vilja verða stjórnmálamaður í framtíðinni og fleiri fulltrúar tóku í sama streng, þegar blaðamaður ræddi við þá.

Eitt mikilvægasta málið í skýrslunni að mati þeirra er að viðurkenna fjölbreytileika fötlunar, en ekki setja alla sem glíma við einhvers konar fötlun undir sama hatt.

Einstaklingur á einhverfurófi sé ekki í sömu stöðu og einstaklingur í hjólastól og því sé ekki rétt að þeir fái sömu meðferð á grundvelli þess að þeir glími við fötlun. 

mbl.is