Óþægilegt að hafa við bæjarjaðarinn

Mæðgurnar Sæbjörg Vilmundardóttir (til vinstri) og Kristín Þorsteinsdóttir. Í baksýn …
Mæðgurnar Sæbjörg Vilmundardóttir (til vinstri) og Kristín Þorsteinsdóttir. Í baksýn er fjallið Þorbjörn. mbl.is/Hákon Pálsson

Mæðgurnar Sæbjörg Vilmundardóttir og Kristín Þorsteinsdóttir, sem búa í Grindavík, hafa ekki fundið fyrir mikilli hræðslu þrátt fyrir jarðskjálftana þar að undanförnu.

Land hef­ur risið und­ir fjall­inu Þor­birni og ná­grenni þess. Talið er að landrisið stafi að mestu leyti af kviku en ekki gasi og mögu­lega hafi kviku­streymi leitað til hliðar í átt að Svartsengi þegar eld­gos­inu í Geld­inga­döl­um lauk.

„Þetta er vissulega óþægilegt en þetta samt búið að vera miklu mýkra en þetta var í fyrra,“ segir Kristín, en mæðgurnar ræddu við blaðamann fyrir utan verslunarmiðstöð í bænum. „Maður finnur ekkert eins mikið fyrir þessu núna. En það er vissulega óþægilegt að hafa þetta við bæjarjaðarinn, miðað við hvað jarðfræðingar eru að segja. Þeir hafa pínu áhyggjur af því að þetta gæti orðið svolítið alvarlegt ef það kæmi þarna yfir.“

Sæbjörg tekur undir þetta og kveðst svolítið hrædd við að það fari að gjósa norðvestan við Þorbjörn.

Hrekkur upp á nóttunni

Finnið þið fyrir hræðslu þegar skjálftarnir koma?

„Nei, það er helst ef maður hrekkur upp að nóttu til. Það kemur pínu í mann: „Bíddu er eitthvað að gerast?“  En það er verið að vakta þetta rosalega vel,“ svarar Kristín hress.

„Maður er líka orðinn vanur þessu, nema ekki við Þorbjörn,“ bætir Sæbjörg við og kveðst ekki hafa vaknað upp við jarðskjálftana.

Frá íbúafundi í Grindavík í síðustu viku vegna jarðskjálftahrinunnar.
Frá íbúafundi í Grindavík í síðustu viku vegna jarðskjálftahrinunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristín heldur áfram: „Það er búið að auka lögregluvakt hérna. Ef það gerist eitthvað þá fer allt á fullt. Lögreglan á Suðurnesjum og björgunarsveitirnar standa sig ótrúlega vel, eins og þeir gerðu í fyrra og þeir eru alveg á vaktinni,“ segir hún og nefnir að hún fylgist grannt með fréttaflutningi af jarðhræringunum, bæði á neti, í sjónvarpi og útvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert