Flugvélar með 22 um borð saknað í Nepal

Ættingjar og vinir þeirra sem saknað er hafa safnast saman …
Ættingjar og vinir þeirra sem saknað er hafa safnast saman við flugvöllinn í Pokhara. AFP/Yunish Gurung

Farþegaflugvél með 22 einstaklinga um borð er saknað í Nepal eftir að allt samband rofnaði við hana í morgun og hún hvarf af ratsjám. Skyggni á svæðinu er slæmt og er veður til leitar afar óhagstætt. AFP-fréttastofan greinir frá.

Um er að ræða vél af gerðinni Twin Otter frá flugfélaginu Tara air. Hún tók á loft frá borginni Pokhara rétt fyrir klukkan tíu að staðartíma, en um fjögur að íslenskum tíma, og átti að lenda í fjallaþorpinu Jomsom um 20 mínútum síðar. Samband rofnaði hins vegar við vélina 15 mínútum eftir flugtak.

Jomsom er vinsæll upphafsstaður fjallgöngufólks í Himalajafjöllunum en það hefur aukist síðustu ár að göngufólki sé flogið á afskekkta staði ásamt vistum. Öryggismálum er hins vegar oft ábótavant.

Nítján farþegar voru í vélinni, þar á meðal tveir þjóðverjar og fjórir Indverjar, ásamt þriggja manna áhöfn. Leitarflokkar á vegum lögreglu og hersins eru nú á leiðinni á vettvang þar sem talið er að vélinni hafi farist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert