Hávaðasamar herþotur við Akureyri og Egilsstaði

Ítalskur flughermaður virðir fyrir sér herþotuna á íslenskri grundu.
Ítalskur flughermaður virðir fyrir sér herþotuna á íslenskri grundu. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Kvartað hefur verið yfir miklum hávaða frá herþotum ítalska flughersins sem hefur stundað aðflugsæfingar yfir Akureyri og Egilsstöðum síðastliðna viku. Aðflugsæfingarnar eru hluti af loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins (NATO) við Ísland.

Hefur því meðal annars verið velt upp hvernig fólki sem flúið hefur stríð líður við þessar aðstæður.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að áhafnaskipti hafi farið fram hjá flugmönnum ítölsku flugsveitarinnar og hafi þess vegna verið þörf á aðflugsæfingum. Tekur Ásgeir fram að flug um helgar sé óvanalegt en að það hafi verið nauðsynlegt núna. 

Þá segir hann loftrýmisgæsluna ekki hávaðameiri núna en venjulega, en bendir á að veður geti haft áhrif á hvernig hljóð berst.

Reyna að tilkynna um æfingar með skýrum hætti

Spurður hvort að einhverjar sérstakar ráðstafanir séu gerðar gagnvart flóttafólki frá stríðssvæðum eins og Úkraínu sem gætu verið að glíma við einhverskonar áfallastreituröskun og þar af leiðandi viðkvæmt fyrir hávaða frá herþotum segir Ásgeir allt gert til að að tilkynna æfingarnar með áberandi hætti.

„Landhelgisgæsla Íslands sendir tilkynningu um aðflugsæfingar við upphaf hverrar loftrýmisgæslu til fjölmiðla. Þá eru tilkynningar birtar á samfélagsmiðlum sem og heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Að auki fá bæjaryfirvöld á Akureyri tilkynninguna senda sérstaklega svo auglýsa megi aðflugsæfingarnar á heimasíðu og á samfélagsmiðlum bæjarins,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is og ítrekar að þeim hafi ekki borist neinar kvartanir frá flóttamönnum hérlendis.

Allar kvartanir teknar alvarlega

Að sögn Ásgeirs hefur Landhelgisgæslunni ekki borist neinar kvartanir frá fólki vegna flugvélanna en bendir á að öllum sé velkomið að gera það og að svoleiðis ábendingar séu teknar alvarlega af flugmálayfirvöldum og Landhelgisgæslunni. 

Spurður hvort að flugmennirnir fái tilmæli um að fara varlega nálægt byggð segir Ásgeir að flugsveitir sem annist loftrýmisgæslu hér á landi fari eftir öllum reglum sem um flug gilda hér á landi. Bætir hann við að í gildi eru sérreglur um herflugvélar og hávaðavarnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert