Hafa safnað um 100 hjólum

Birgi Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda.
Birgi Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda. mbl.is/Arnþór

Áhugamannafélagið Reiðhjólabændur hefur safnað um 100 hjólum fyrir flóttafólk, skjólstæðinga gistiskýla og aðra þá sem eru í erfiðri stöðu. Rúmlega 70 hjól hafa þegar verið afhent, yfirfarin og löguð.

Birgir Fannar Birgisson, frammámaður í Reiðhjóla­bænd­um, segir í samtali við mbl.is að framlagið hafi gengið vonum framar og að viðtökur fólks við að gefa hjólin sín hafi verið frábærar. „Þetta er allt frá því að vera hjól sem hafa legið í hjólageymslu í tíu ár og enginn veit hver á upp í það að vera hjól sem fólk hætti að nota síðasta sumar því það fékk sér nýtt,“ segir hann.

Birgir segir að um sé að ræða áframhaldandi verkefni enda sé þörfin mikil. Hann segir að það sem Reiðhjólabændur vanti núna sé einskonar yfirlit yfir þá sem þurfi hjól svo að hægt sé að koma hjólunum til þeirra. Eins bendir hann á að eftir því sem verkefnið stækki verði þörf á fleiri hjálparhöndum.

Einnig ætlað að koma í veg fyrir nytjastuldur

Hann vekur auk þess sérstaka athygli á þeim vanda sem hefur herjað á höfuðborgarsvæðið, og þá sérstaklega miðbæ Reykjavíkur, hvað varðar reiðhjólastuld. Birgir telur þetta framlag koma til móts við þann vanda með því að útvega hjól til þeirra aðila sem sjá sér ekki annað fært en að taka þau ófrjálsri hendi.

„Í miðbæ Reykjavíkur hefur því miður verið töluvert af hjólreiðaþjófnaði. Þegar það er þessi nytjastuldur, það er að segja fólk grípur hjól einhversstaðar til að komast frá A til B og hendir því svo frá sér og hefur engan áhuga á því umfram það. Þetta er hægt að stoppa með því að bjóða fólki góð, örugg og nothæf hjól,“ segir hann, en hann bindur vonir við að framlag Reiðhjólabænda stemmi stigu við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert