Þátttaka í leghálsskimun verði jafn góð og fyrir faraldur

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis dró enn úr þátttöku kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini árið 2021 samanborið við árið á undan. Mæting í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini hefur verið undir viðmiðum til fjölda ára hér á landi. 

Þetta er á meðal þess sem fram kom í svari Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ernu Bjarnadóttur varaþingmanns Miðflokksins um aðgerðir til að auka þátttöku kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini. 

Í svari heilbrigðisráðherra segir að nærtækasta skýringin á lélegri þátttöku séu breytingar á fyrirkomulagi skimunar, sem hófst í byrjun árs 2021, og einnig er líklegt að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi haft áhrif. Unnið hafi verið að því að efla upplýsingamiðlun um breytt skipulag og mikilvægi leghálsskimunar með hvatningu til kvenna um að mæta í skimun. 

Væntingar um árangur hvatningarátaksins eru að þátttaka verði a.m.k. jafn góð og hún var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, en framkvæmdaraðilar munu vinna áfram að því að auka þátttökuna þangað til hún verður orðin ásættanleg samkvæmt viðmiðum að því er segir í svari ráðherra. Þá sé einnig fyrirhugað að gera tæknilegar breytingar á skimunarkerfinu til að stuðla að aukinni þátttöku með því að konur fái sendan fyrir fram bókaðan tíma í stað hvatningar um að bóka sér tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert