Vaxandi áhyggjur af verðbólgunni

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Hari

„Því miður koma þessar tölur ekki á óvart,“ sagði Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, þegar mbl.is falaðist eftir viðbrögðum við tölum Hagstofunnar um verðbólguna í landinu. 

„Við höfum vaxandi áhyggjur af stöðu mála. Sem fyrr þá þurfum við öll að leggjast á eitt við að koma þessari verðbólgu niður. Þá á ég við neytendur, heildsala, innflytjendur, forsvarsmenn fyrirtækja og okkur öll. Ég luma auðvitað ekki á töfralausnum en vonast til þess að fyrirtæki haldi aftur af sér með verðhækkanir eins og þau mögulega geta. Atvinnurekendur sýna vonandi sama aðhald og þeir óska eftir að launþegar sýni þegar þeir fara fram á launahækkanir.“

Breki segir næstu mánuði einkennast af óvissu og þá sérstaklega á meðan stríðsátök eru í Evrópu. 

„Ég get því miður ekki spáð miklu um framtíðina en augljóslega hefur maður miklar áhyggjur. Þessari innrás í Úkraínu verður að linna, til að hægt sé að ná aftur stöðugleika. Sér í lagi hvað varðar matvöruverð en einnig ýmsa aðra hluti sem við höfum reitt okkur á frá þessum heimshluta,“ sagði Breki Karlsson í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert