Dýrt að leysa vandann en dýrara að gera það ekki

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Bráðamóttakan er ótrúlega öflug, í þokkalegu húsnæði, vel tækjum búin og hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki. Allt þetta dugar þó ekki til, þar sem hið langvinna álag og samviskubit yfir að geta ekki sinnt þeim sem þangað leita með sómasamlegum hætti, hrekur í burtu fleiri og fleiri af mínum frábæru samstarfsmönnum.“

Þetta skrifar Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans.

Fjórir hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á bráðamóttökunni vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar. Auk þess tóku tíu uppsagnir gildi í mars.

Alls voru 98 sjúklingar skráðir á bráðamóttökuna í gær. Af þeim hefðu 33 átt að vera á öðrum deildum en þær voru allar yfirfullar. Biðtími hjá sjúklingum eftir þjónustu var í sumum tilfellum yfir fimm klukkustundir.

Jón Magnús segist skilja og virða ákvörðun þeirra sem segja upp. Eftir sitji þó bráðamóttakan í enn meiri vanda, veikari en áður þar sem reyndir starfsmenn eru burðarbitinn í þjónustu deildarinnar.

Þarf að rjúfa vítahringinn

„Álagið eykst á þá sem eftir verða og fleiri hætta. Þetta er vítahringur sem aðeins ein lausn er á: það þarf að búa til raunhæfa áætlun um að fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu um a.m.k. 500 umfram núverandi áætlun á næstu 3 árum og taka ákvörðun um að mynda þjóðarsamstöðu um eðlilegar kjarabætur fyrir heilbrigðisstarfsfólk,“ skrifar Jón Magnús.

Landspítali í Fossvogi.
Landspítali í Fossvogi.

Hann segir að í stóru myndinni þurfi að færa ýmsa þjónustu frá Landspítalanum til annarra stofnana, svo sem heilsugæslu, hjúkrunarheimila og í einhverjum mæli einkafyrirtækja.

Þetta verður dýrt, það mun krefjast þess að framlög til heilbrigðismála aukist um milljarða á ári hverju. En það er dýrara að gera það ekki!“ skrifar Jón Magnús sem segir að þetta muni taka tíma:

Það verður erfitt en þess vegna verðum við að vinna saman og gera okkar allra besta. Saman getum við leyst úr þessum vanda. Þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert