Telur ekki rétt að málið sé byggt á kjaftasögum

Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður.
Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Sindra Þórs Sigríðarsonar Hilmarssonar, telur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ingólfs Þórarinssonar tónlistarmanns gegn Sindra vera lögfræðilega réttan og í samræmi við nýjustu dómaframkvæmd Landsréttar og Hæstaréttar. Sindri var sýknaður af öllum kröfum Ingólfs sem höfðað hafði meiðyrðamál auk þess sem hann krafðist bóta. 

Skiptar skoðanir eru um dóm héraðsdóms í málinu. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, telur niðurstöðu dómsins m.a. vera „kolranga“. 

Þessu er Sigrún ekki sammála;

„Í málum sem þessum er það mín reynsla að dómarar leggi sig fram við að komast að sem lögfræðilega réttustu niðurstöðu, enda mikið undir. Ég tel þennan dóm endurspegla það. Fyrir þá lögmenn mér nálægt, sem eru hvað mest í þessum málaflokki, kom niðurstaðan alls ekki á óvart – og ég hreinlega hvert þá sem telja dóminn lögfræðilega rangan að lesa hann allan og þá dóma sem vísað er til,“ segir Sigrún við mbl.is. 

Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).
Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).

„Það hafa miklar breytingar orðið í dómaframkvæmd rétt eins og í öllu samfélaginu þegar kemur að þessum málum. Við erum að fara úr miklum öfgum og hægt og rólega að fikra okkur í átt að réttlátari leikreglum. Í þessu máli var Sindri talinn í góðri trú um réttmæti ummælanna og þau voru sannarlega liður í mikilvægri þjóðfélagsumræðu, en á þessum tíma voru málefni Ingólfs þá þegar í hámæli og frásagnir af kynferðislegum samskiptum hans við stúlkur undir lögaldri á ansi margra vörum. Hans mál var birtingarmynd umræðunnar þá stundina,“ segir Sigrún. 

Hafi ekki haft neina ástæðu til að efast

Sigrún telur það ekki rétt að málið hafi verið byggt á kjaftasögum líkt og margir hafi haldið fram. 

„Það hefur verið mikið gert úr því að málið sé byggt á kjaftasögum. Það er ekki rétt. Í gögnum máls mátti finna um hundrað opinber ummæli nafngreindra aðila sem vottuðu um hegðun Ingólfs. Sindri var einnig á þessum tíma í tengslum við þær konur sem sögðu sögu sína undir nafnvernd á TikTok og hafði því enga ástæðu til þess að efast um heilindi þeirra,“ segir Sigrún og bætir við:

„Þau vitni sem báru um hegðun Ingólfs fyrir dómi, bæði beint og óbeint, voru í raun aðeins afmarkaður þáttur í vörninni, enda vildum við ekki draga of marga inn í málið að óþörfu. Sé þess talin þörf munum við fá bein vitni fyrri dóm verði málinu áfrýjað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert