„Svolítið seint í rassinn gripið“

mbl.is/​Hari

Framkvæmdastjóri leigubifreiðastöðvarinnar BSR segir ekki veita af því að fjölga leyfum til bifreiðaaksturs eins og fyrirhugað er. 

Innviðaráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið að fjölga atvinnuleyfum til  leigubifreiðaaksturs um hundrað á höfuborgarsvæðinu og Suðurnesjum samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu á dögunum. 

Fram hefur komið á undanförnum vikum og mánuðum að leigubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu gangi illa að anna eftirspurninni eftir að lífið á Íslandi komst í eðlilegra horf eftir heimsfaraldurinn. 

Ekki liggur fyrir hvenær leyfunum hundrað verður úthlutað eða hvort nógu margir sæki um þau yfirleitt. Í heimsfaraldrinum skiluðu margir leigubílstjórar inn leyfum og fundu sér annað starf. Nýlega úthlutaði hins vegar Samgöngustofa 45 leyfum og því ættu viðskiptavinir að finna fyrir einhverri fjölgun leigubíla. 

„Við á BSR við fögnum því bara að leyfum sé fjölgað og þessu sé haldið í jafnvægi þannig að bílstjórarnir hafi nóg að gera og viðskiptavinirnir fái góða þjónustu. Þannig viljum við hafa það,“ sagði Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, þegar mbl.is bar undir hann yfirlýsinguna frá ráðuneytinu um ákvörðun ráðherra. Guðmundur hafði í vetur kallað eftir því að leyfum yrði fjölgað. 

„Það veitti ekki af þessum hundrað. Ég hafði áður komið fram í fjölmiðlum og sagt að það þyrfti 150 til 200 leyfi. Þetta er svolítið seint í rassinn gripið því sumarið er komið og ferðamennirnir eru komnir,“ sagði Guðmundur Börkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert