Væri betri mönn­un í verk­falli

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir ástandið algjörlega fyrir neðan allar hellur á Landspítalanum og víðar. „Þetta er náttúrulega ófremdarástand. Ég get ekki annað en tekið undir það.“

Hún segir ýmislegt til ráða en að hún viti ekki hvernig yfirvöld ætli í þetta sinn að bjarga ástandinu fyrir horn. Þá segir hún mikla þreytu vera meðal hjúkrunarfræðinga og að síðustu tvö covid-ár hafi ýtt þeim nær brúninni en ella.

„Nú er bara búið að ganga svo nærri þessum mannauði sem hjúkrunarfræðingar eru að við stöndum bara frammi fyrir því að hér þarf að draga saman allverulega í heilbrigðiskerfinu ef það á að halda í þá hjúkrunarfræðinga sem þar eru að vinna í dag.“

Á að reyna að halda í starfsfólkið?

Hún bendir á að hjúkrunarfræðingar eigi fjölskyldur og einkalíf, sinni börnum sínum og heimili og lifi lífinu og ekki sé verið að hjálpa hér við að tryggja aðskilnað vinnu og einkalífs. Þá sé vaxandi fjöldi hjúkrunarfræðinga sem innan fimm ára frá útskrift eru hættir að starfa við hjúkrun.

Að sögn Guðbjargar ýttu Covid-árin hjúkrunarfræðingum nær brúninni.
Að sögn Guðbjargar ýttu Covid-árin hjúkrunarfræðingum nær brúninni. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Fólk er náttúrulega bara þannig þenkjandi í dag að það setur ekki vinnuna í fyrsta annað og þriðja sætið eins og kannski fólk var því miður að gera hérna áður fyrr. Þannig að fólk auðvitað leitar þá bara á önnur mið til að geta haft mannsæmandi laun og unnið en líka átt sitt einkalíf og fengið að vera í friði á milli þess sem það mætir í vinnunni.

Því það er hringt í fólk og fólk fær endalaust skilaboð meðan það er ekki á vaktinni. Það er eitthvað sem verður undan að láta og það er löngu komið að þeim tímamótum í þessari þjónustu,“ segir Guðbjörg og bætir við:

 „Nú bara þarf að velja, á að reyna að halda í starfsfólkið eða á að keyra það út og þá er enginn eftir á endanum til að sinna þeim sem þarf að sinna.“

Guðbjörg segir að hjúkrunarfræðingar þurfi náttúrulega hærri laun. Þá séu hjúkrunarfræðingar sem starfa ekki sem slíkir í dag sem gætu hugsað sér að koma til starfa ef að launakjörin væru betri og starfsumhverfið aðlagandi, sem það sé ekki. 

Hún bendir á að það taki til dæmis endalausan tíma að byggja nýjan Landspítala og húsakostur heilbrigðisþjónustunnar, víðs vegar um landið, sé ekki alltaf til fyrirmyndar. Síður en svo.

Stundum ekki hægt að ná öryggismönnun

Guðbjörg segir Ísland geta lært af öðrum með því að setja hér mönnunarviðmið í lög eða reglugerðir eins og margar aðrar þjóðir hafa gert og þannig snúið þessu vandamáli að hluta til við. „Það þýðir að það eru takmörk sett á það hversu marga sjúklinga hver og einn hjúkrunarfræðingur má hafa á vakt. Það skiptir gífurlega miklu máli.“

Að sögn Guðbjargar er víða um landið starfað á svokallaðri öryggismönnun, mönnun sem unnið væri eftir ef að til verkfalls kæmi.

„Sums staðar er ekki hægt að ná þessari öryggismönnun og við erum stödd þar í dag. Þannig að mönnunin væri betri ef að um verkfall væri að ræða,“ bætir hún við.

 „Ég bara skil ekki af hverju við getum ekki lært af öðrum þjóðum og sett almennilegt fjármagn og bolmagn í að halda hér uppi frábærri hátækni- og gæðaheilbrigðisþjónustu í staðinn fyrir að missa þetta svona niður eins og við erum að gera í dag og erum búin að gera undanfarin ár,“ segir Guðbjörg og bætir við:

„Í hvernig þjóðfélagi viljum við lifa og hvernig heilbrigðisþjónustu viljum við geta fengið?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert