Með hæstu einkunnina öll þrjú skólaárin

Gísella Hannesdóttir, dúx Menntaskólans að Laugarvatni.
Gísella Hannesdóttir, dúx Menntaskólans að Laugarvatni. Ljósmynd/Aðsend

Þétt skipulagðir dagar, mikill metnaður og dass af fullkomnunaráráttu skiluðu dúx Menntaskólans að Laugarvatni næst hæstu einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans. Fékk hún tíu í öllum áföngunum á lokaárinu.

„Vinir mínir segja að ég sé workaholic,“ segir Gísella Hannesdóttir, dúx ML sem útskrifaðist með 9,79 í meðaleinkunn af félags- og hugvísindabraut. Hún hafði heldur betur ekki ætlað sér að ná þessum árangri þegar hún hóf menntaskólagönguna en á fyrsta ári segir hún að hugarfarið hafi snúist um að njóta lífsins og taka náminu léttilega.

Samviskan og metnaðurinn bar menntskælinginn knáa þó ofurliði en undir lok fyrsta skólaársins endaði hún með hæstu meðaleinkunn allra nemenda í ML, sem var 9,7. Sömu sögu var að segja af næsta ári en þá gerði hún gott um betur og fékk 9,8.

Það kom henni því lítið á óvart þegar tilkynnt var hver dúxaði enda fékk hún tíu í öllum áföngum á lokaárinu og kom því enginn annar til greinar en hún sjálf.

Stefnir á Lýðháskóla

Gísella var nýkomin til Mexíkó í útskriftarferð skólans þegar að blaðamaður sló á þráðinn til hennar. Rigning og leiðindaveður tók á móti nýstúdentunum sem binda þó miklar vonir við að það fari brátt að stytta upp enda löngu kominn tími á að slaka aðeins á eftir þriggja ára menntaskólagöngu sem hefur að miklu leyti einkennst af samkomutakmörkunum.

Sjálf stefnir Gísella á að fara í lýðháskóla í Danmörku í sumar til að halda fjörinu áfram og verður frekara nám því að bíða um sinn. Hún kveðst þó ekki hafa gert upp hug sinn varðandi hvaða námsleið verði fyrir valinu enda margir spennandi valmöguleikar í boði.

„Ég er með smá vandamál, ég er með áhuga á öllu. Það er ekkert eitt sem mig langar að gera,“ segir Gísella spurð um framtíðina.

Hún kveðst þó hafa mikinn áhuga á list, þar á meðal ritlist. Telur hún það hafa verið afar hjálplegt í gegnum skólagönguna enda gat hún látið móðan mása í öllum verkefnum og komið skoðunum sínum á framfæri skilmerkilega.

Formaður kórsins í þokkabót

Auk þess að hafa staðið sig vel í námi tók Gísella einnig virkan þátt í félagslífi skólans – eða nánar tiltekið öllu sem hún komst í. Kom hún m.a. að uppsetningu skólaleikritsins, gegndi formannsembætti ML-kórsins – sem 92% nemenda skólans eru hluti af. Skiptir góð stemning þar meira máli en söngurinn sjálfur.

Þétta dagskráin krafðist gríðarlegs skipulags, að sögn Gísellu, sem skildi lítið sem ekkert svigrúm eftir fyrir frestunaráráttu.

„Það var örugglega það sem kom mér svona rosalega langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert