Aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi ítrekað gagnrýndur

Þar segir að það sé mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld …
Þar segir að það sé mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taki ítrekað umsóknir um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað umsækjendur aftur til fyrsta viðtökuríkis innan Schengen, sérstaklega Grikklands. AFP

Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir að það eigi að vísa 197 manns úr landi á næstu dögum. Flestum þeirra verði vísað til Grikklands en að fjölskyldur með börn fái að vera um kyrrt. Í tilefni þessa telur Íslandsdeild Amnesty International ástæðu til að senda íslenskum yfirvöldum yfirlýsingu.

Þetta kemur fram á vef Íslandsdeildarinnar.

Þar segir að það sé mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taki ítrekað umsóknir um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað umsækjendur aftur til fyrsta viðtökuríkis innan Schengen, sérstaklega Grikklands.

Aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi hefur m.a. verið gagnrýndur af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og  Amnesty International. Fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðsins, og mannréttinda- og frjálsra félagasamtaka gefa til kynna að raunveruleg staða flóttafólks í Grikklandi sé verulega ábótavant,“ segir í yfirlýsingunni.

Bent er á að í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála komi beinlínis fram að það sé mat hennar að ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilfellum við félagslega einangrun.

Flóttafólk beitt ofbeldi af hendi grísku lögreglunnar

Samkvæmt skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá því í júní 2021 hafa einstaklingar með alþjóðlega vernd mætt erfiðleikum við að fá útgefið skattnúmer hjá grískum stjórnvöldum. Útgáfa skattnúmers er grundvöllur þess að geta lifað og starfað löglega í Grikklandi og þess að einstaklingar geti sótt aðstoð og réttindi hjá grískum stjórnvöldum. Skattnúmerið er forsenda þess að geta sótt um félagslega aðstoð, til að vinna og til þess að gera samninga um leigu á húsnæði,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar.  

Ekki má flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sú er staðan ef sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is