Farþegar Niceair sendir heim með öðru flugfélagi

Flugfélagið fór sitt fyrsta flug í gær.
Flugfélagið fór sitt fyrsta flug í gær. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Farþegar á Englandi sem áttu bókaða ferð til Íslands með akureyrska flugfélaginu Niceair í dag komust ekki hingað til lands með félaginu, þar sem efasemdir komu upp á Stansted-flugvellinum í Lundúnum um leyfismál. Fengu þeir bókað með öðru flugfélagi til Íslands.

Um var að ræða fyrsta flug félagsins frá London en vélin átti að lenda milli klukkan tvö og þrjú á Akureyrarflugvelli í dag. Farþegarnir eru nú á leið til Keflavíkur.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Niceair, segir að upp hafi komið efasemdir um leyfismál í Bretlandi, sem félagið er enn að fá skýringar á. Erfiðlega hefur gengið að ná tali af yfirvöldum í Bretlandi vegna 70 ára krýningarafmælis Elísabetar Bretadrottningar. 

Telur framkvæmdastjórinn að um byrjunarörðugleika sé að ræða en jómfrúarflug flugfélagsins var til Kaupmannahafnar í gær. 

Hafi verið með lendingarheimild

Þorvaldur Lúðvík segir vandamálið hafa komið starfsmönnum Niceair spánskt fyrir sjónir, enda hafi félagið fengið lendingarheimild í London fyrir tveimur eða þremur mánuðum.

Hann segir flugið ekki hafa verið fellt niður heldur hafi verið um tafir að ræða. Til að draga úr óþægindum fyrir farþega var þó tekin ákvörðun um að senda þá til Íslands með öðru flugfélagi. Eru farþegarnir núna á leið til Íslands og munu þeir lenda á Keflavíkurflugvelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert