Mannlíf þarf ekki að birta andsvör Róberts

Róbert Wessman kærði Mannlíf til fjölmiðlanefndar vegna synjunar á því …
Róbert Wessman kærði Mannlíf til fjölmiðlanefndar vegna synjunar á því að birta andsvör hans við frétt um innbrot á skrifstofu Mannlífs.

Róbert Wessman laut í lægra haldi fyrir Sólartúni ehf., fjölmiðlaveitu Mannlífs, Reyni Traustasyni, ritstjóra, og Gunnhildi Kjerúlf Birgisdóttur, blaðamanni, með úrskurði fjölmiðlanefndar. 

Þann 24. mars kvartaði Róbert til fjölmiðlanefndar vegna synjunar Mannlífs á að birta andsvör hans við frétt sem bar fyrirsögnina: „„Lögreglan hefur enn ekki yfirheyrt Róbert Wessman: „Það er ekki búið að því.““

Annarlegir hvatar

Hann kvað Mannlíf hafa farið með rangt mál og ekki gætt að hlutleysi eða heimildum. „Væri umfjöllunin bæði óvönduð og bersýnilega röng með annarlegan hvata að leiðarljósi.“

Umfjöllunin bar þess merki, að mati Róberts, að hann hefði haft aðkomu að innbroti á skrifstofur Mannlífs og fullyrt að lögreglan ætti eftir að yfirheyra hann vegna málsins. 

Andsvarið feli í sér meira en leiðréttingu

Fjölmiðlanefnd hafnaði að tryggja Róberti rétt til andsvara á þeim grundvelli að í andsvari hans hafi falist annað og/eða meira en að leiðrétta staðreyndir. Því hafi Mannlíf verið heimilt að synja beiðni Róberts um birtingu andsvara. 

Andsvörin sem um ræðir voru á þennan veg:

„Í tilefni af greinarskrifum Mannlífs á vefnum þann 17. maí 2022 undir fyrirsögninni:

„Lögreglan hefur enn ekki yfirheyrt Róbert Wessman: „Það er ekki búið að því““ er rétt að eftirfarandi komi fram: Í greininni er þess getið að Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hafi kært Róbert í mars sl. fyrir það sem ritstjórinn kallar "yfirhylmingu sönnunargagna" í kjölfar meints innbrots á skrifstofur miðilsins. Með framangreindum greinarskrifum vegur Reynir Traustason enn og aftur að æru Róberts Wessman, með því að gefa annars vegar til kynna að Róbert hafi gerst sekur um hegningarlagabrot og hins vegar að til standi að yfirheyra hann af lögreglu vegna hins skáldaða hegningarlagabrots. Þessum ásökunum er harðlega mótmælt og vísað til föðurhúsanna. Þá er gerð athugasemd við það, að Reynir Traustason haldi áfram linnu- og tilefnislausum skrifum sínum um Róbert Wessman, þegar fyrir liggur að Reynir hafi þegið tugi milljóna fyrir skrif sín úr höndum brottrekins starfsmanns Alvogen, Halldórs Kristmannssonar. Það hátterni brýtur í bága við siðareglur blaðamanna með vítaverðum hætti.

Fréttin hefur verið uppfærð
mbl.is