Andlát: Kristján Helgi Guðmundsson

Kristján Helgi Guðmundsson.
Kristján Helgi Guðmundsson.

Kristján Helgi Guðmundsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, er látinn, 78 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi síðastliðinn laugardag, eftir löng veikindi.

Kristján Helgi var fæddur 10. september árið 1943, sonur Guðmundar Bergmanns Magnússonar (1913-1990) og Svövu Bernharðsdóttur (1914-2002). Hann var sá þriðji í röð fjögurra systkina. Hin eru Bernharður, Margrét Pálína og Þórhallur.

Kristján lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1964 og fyrrihlutaprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands þremur árum síðar. Tók próf í íslensku og sögu við HÍ og aflaði sér kennsluréttinda. Hann sinnti sem ungur maður kennslu við Vogaskóla í Reykjavík, en eftir að háskólanámi lauk réð hann sig til starfa hjá Kópavogsbæ. Var félagsmálastjóri þar frá 1971 til 1982 og bæjarstjóri 1982 til 1990. Eftir það var hann verkefnastjóri í velferðarmálum hjá Hafnarfjarðarbæ og sinnti þar meðal annars málefnum eldri borgara. Í Hafnarfirði starfaði hann fram til eftirlaunaaldurs.

Auk fyrrgreindra starfa var Kristján um skeið formaður Myndlistarskóla Kópavogs, kom að stofnun Fjölsmiðjunnar og var virkur þátttakandi í Norræna félaginu á Íslandi. Þá var hann um skeið gjaldkeri ungmennafélagsins Breiðabliks, sat í stjórn hestamannafélagsins Fáks og svo mætti áfram telja. Einnig lét Kristján að sér kveða í ýmsu pólitísku starfi, einkum á síðari árum, og þá á vettvangi Samfylkingarinnar.

Eftirlifandi kona Kristjáns er Margrét Hjaltadóttir kennari, f. 1944. Börn þeirra eru Halla Karen, f. 1970, íþróttakennari og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ; Svava, f. 1974, viðskiptafræðingur og Hjalti, f. 1978, íþróttafræðingur með meistaragráðu í þjálfun og lífeðlisfræði.

Útför Kristjáns verður gerð frá Digraneskirkju í Kópavogi næstkomandi fimmtudag, 9. júní, kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert