Ný borgarstjórn verði kynnt fyrir þriðjudag

Einar segir að borgarstjórastóllinn hafi ekki verið ræddur.
Einar segir að borgarstjórastóllinn hafi ekki verið ræddur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í borginni, segir að stefnt sé að því að kynna nýjan meirihluta fyrir þriðjudag.

Oddvitar Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hafa fundað frá því klukkan tíu í morgun og munu funda fram eftir degi.

„Við höldum áfram að funda, klárum daginn í dag og svo fundum við allan daginn á morgun líka,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Einar að borgarstjórastóllinn hafi ekki verið ræddur.

Samhljómur um húsnæðismálin

Spurður hvort lending hafi náðst í húsnæðismálum, þá sérstaklega hvað varðar hraðari íbúðauppbyggingu í Keldnalandinu, segir Einar samhljóm vera milli flokkanna.

„Það er fínn samhljómur milli flokkanna um breytingar á ýmsum málum og meðal annars tökum við mið af stöðu húsnæðismála og Framsókn hefur talað fyrir kröftugri húsnæðisuppbyggingu á næsta kjörtímabili og mér heyrist vera ágætur samhljómur um það.“

Oddvitar flokkanna munu funda allan sunnudaginn.
Oddvitar flokkanna munu funda allan sunnudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taka meiri tíma ef þarf

„Verkefnið er að reyna að ná saman meirihlutasáttmála fyrir þriðjudaginn þegar næsti fundur borgarstjórnar verður haldinn. Það er svona markmiðið en ef við þurfum meiri tíma að þá tökum við okkur hann, en það er aldrei neitt klárt fyrr en það er klárt,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert