Alvarlegt mál sem ber að nálgast þannig

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki að nafngreina mann sem grunaður er um að hafa orðið öðrum manni að bana í Barðavogi á laugardagskvöld enda er það ekki venjan. Maðurinn var ekki góðkunningi lögreglunnar, að sögn Margeirs Sveinssonar, yfirlögregluþjóns hjá deildinni.

„Rannsókninni miðar vel,“ segir Margeir í samtali við mbl.is. „Við erum að fara yfir málin og gögnin og það sem við erum búin að vera að sanka að okkur.“

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is er maðurinn sem lést fædd­ur árið 1975 en karl­maður, fædd­ur árið 2001, er grunaður um að hafa orðið manninum að bana. Rannsókn málsins stendur yfir en eins og fram hefur komið var lögregla um helgina í tvígang kölluð á staðinn vegna líkamsárása fyrir manndrápið. Hvorugur mannanna lagði fram kæru í þeim tilvikum og því gat lögregla lítið aðhafst.

Meint manndráp átti sér stað í Barðavogi 22.
Meint manndráp átti sér stað í Barðavogi 22. mbl.is/Óttar

Lögreglan getur leitað álits sérfróðra í alvarlegum ofbeldismálum

Hafði lögregla haft afskipti af honum fyrir þessar líkamsárásir, var hann góðkunningi lögreglunnar?

„Nei.“

Aðspurður segist Margeir ekki ætla að tjá sig frekar um það hvort lögreglan muni leita til dómskvaddra matsmanna eða annarra sérfræðinga við rannsókn málsins.

Spurður um sérfræðiálit í málum sem þessum segir Margeir:

„Almennt í alvarlegum ofbeldismálum og brotum þá hefur lögregla tök á að leita til sérfróðra manna sem eru oft á tíðum dómskvaddir matsmenn. Það getur verið sálfræðingur, það getur verið bifvélavirki, það getur verið stærðfræðingur þess vegna. Það er í öllum svona alvarlegum málum sem lögreglan hefur tök á að óska eftir eða fara fram á að það verði dómskvaddir aðilar.“

Spurður um umfang rannsóknarinnar segir Margeir:

„Ég set ekki mælikvarða á það hvað er mikið og hvað er lítið. Þetta er bara alvarlegt mál sem ber að nálgast þannig.“

mbl.is
Loka