Barnasprengja kom eftir Covid

Á síðasta ári, 2021, voru fæðingarnar á Landspítalanum flestar í …
Á síðasta ári, 2021, voru fæðingarnar á Landspítalanum flestar í júlímánuði, alls 334. Ljósmynd/Pexels

Frjósemi landans virðist hafa verið með mesta móti í heimsfaraldri Covid-19 en heldur virðist hafa dregið úr henni þegar á veirutímann leið. Þetta má álykta af upplýsingum um starfsemi Landspítalans, sem finna má á vef sjúkrahússins. Á tímabilinu janúar til maí í ár fæddust á sjúkrahúsinu alls 1.310 börn, borið saman við 1.418 börn á þessum sömu mánuðum á síðasta ári, 2021. Á fimm fyrstu mánuðum ársins 2020 voru fæðingar á spítalanum 1.263 talsins.

Fæðingar á Landspítalanum allt árið í fyrra voru 3.466, borið saman við 3.288 árið 2020. Munurinn á milli ára er um 5,5%.

Fóru að huga að barneignum

Á síðasta ári, 2021, voru fæðingarnar á Landspítalanum flestar í júlímánuði, alls 334. Eru það þá börn sem komu undir níu mánuðum fyrr, það er í október 2020, en á þeim tíma gildu víðtækar sóttvarnarráðstafanir. Ekki máttu fleiri en tíu manns koma saman, allt íþróttastarf og sviðslistir voru bannaðar – og víðtæk grímuskylda gilti um alla fimmtán ára og eldri. Ætla má af tölunum að við þessar aðstæður hafi pör gjarnan farið að huga að barneignum. Með öðrum orðum; lokanirnar leiddu af sér barnsfæðingar níu mánuðum síðar.

Næstu mánuði eftir þetta voru fæðingarnar talsvert færri, 297 í ágúst 2021 og færri alla mánuði þaðan í frá út árið. Voru 245 í desember sl.

Það sem af er þessu ári voru fæðingar á Landspítalanum flestar í janúar, 265, en síðan þá að jafnaði um 250 í mánuði.

Tekið skal fram að tölurnar hér að framan miðast við Landspítalann einan. 

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert