„Hann vísvitandi keyrir mig niður og stingur af“

Margeir á eftir að láta meta skemmdir á hjólinu sínu …
Margeir á eftir að láta meta skemmdir á hjólinu sínu en hann segir það vera í hakki eftir áreksturinn. Ljósmynd/Aðsend

„Hann var eitthvað að reyna að komast í burtu og endaði á því að fara sikksakk á milli barnavagna og gangandi vegfarenda til að komast í burtu,“ segir Margeir Steinar Ingólfsson í samtali við mbl.is, en Margeir var að hjóla niður Laugaveginn á laugardagskvöld þegar bifreið ók hann niður.

Að sögn sjónarvotta hafði ökumaður bílsins þanið vélina og flautað áður en hann ók á Margeir með þeim afleiðingum að hann féll af hjólinu. Þá hafi Margeir ætlað að tala við ökumann bílsins sem keyrði þá yfir hjól hans og flúði niður Laugaveginn þar sem hann breytist í göngugötu á gatnamótunum við Frakkastíg.

Margeir Steinar Ingólfsson var að hjóla niður Laugaveginn á laugardagskvöldið …
Margeir Steinar Ingólfsson var að hjóla niður Laugaveginn á laugardagskvöldið þegar hann var keyrður niður af ökumanni bifreiðar, að því virðist vísvitandi. Ljósmynd/Aðsend

„Það tók mig alveg sólarhring að átta mig á því hversu alvarlegt þetta er. Hann vísvitandi keyrir mig niður og stingur svo af,“ segir Margeir.

Meðal vitna var bandarískur ferðamaður en hann sendi Margeiri ýtarlega lýsingu á árekstrinum. Í lýsingunni segir meðal annars að ökumaður bifreiðarinnar hafi stofnað vegfarendum, börnum og hundum í mikla hættu þegar hann flúði vettvang.

„Þetta var ekki eitthvert óhapp“

Lögreglan hefur ekki aftur haft samband við Margeir sem segir að rannsóknin eigi ekki að taka svona langan tíma. 

„Hvað ætla þeir að gera í framtíðinni varðandi svona atvik? Á að gera eitthvað af alvöru í þessu? Þetta hefði getað farið mjög illa,“ segir Margeir sem slapp þó við alvarleg meiðsli.

„Maður myndi halda að svona mann ætti að svipta ökuréttindum og taka hann úr umferð. Öll vitni lýsa þessu eins, þetta var ekki eitthvert óhapp. Hjólið er alveg í hakki.“

Ökumenn skorti tillitssemi

„Bíllinn var búinn að vera fyrir aftan mig í svona 30 sekúndur eða eitthvað, það var ekki langur tími. Ég var á milli hans og bílsins fyrir framan mig þannig að hann hefði ekkert getað komist þó ég hefði ekki verið á götunni,“ segir Margeir.

„Ég hef orðið var við það í umræðunni að bílar á þessum slóðum séu ekkert sérstaklega mikið að taka tillit til gangandi eða hjólandi vegfaranda. Það er eins og það sé kergja að myndast þarna því það er verið að opna Laugaveginn fyrir gangandi fólki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert