„Við búumst ekki við stórum faraldri“

Þórólfur gerir ekki ráð fyrir að þurfa að takast á …
Þórólfur gerir ekki ráð fyrir að þurfa að takast á við annan faraldur áður en hann lætur af störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búin að vera að bíða eftir því að hún komi og höfum talið líklegt að það gerist eins og í Evrópu. Það er ekkert gríðarlega hraður gangur í þessu í Evrópu en þó nokkur. Það eru um 1.000 manns sem hafa greinst núna utan Afríku og talan er eflaust hærri en það. Þannig að við sjáum þetta sama mynstur og í öðrum Evrópulöndum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, inntur eftir viðbrögðum við fyrstu tilfellum apabólu hér á landi.

Greint var frá því í morgun að tveir karlmenn hefðu greinst með apabóluna á fyrsta prófi og að sýnin yrðu send til útlanda til staðfestingar. Yfirgnæfandi líkur væru hins vegar á því að greiningin væri rétt.

Þórólfur segir fólk þó alveg geta verið rólegt, enda sé mikill eðlismunur á apabólu og Covid. Ekki sé búist við stórum faraldri.

Ólíklegt að apabólan stökkbreytist

Hann bendir á að veiran smitist við náið samneyti eins og kynmök og í gegnum öndunarfæri með dropasmiti.

„Þau smit sem hafa verið að greinast í Evrópu og hér á landi eru sennilega við kynmök og byrja þá á húð á kynfærum. Það er það sem við erum að vekja athygli á. Í fyrsta lagi höfum við verið að biðla til fólks að fara varlega í skyndikynnum, sérstaklega á ferðum erlendis. Við erum líka að biðla til fólks að vera vakandi fyrir einkennum, bólum og blöðrum á þessum stöðum, sérstaklega á kynfærum og i kringum kynfæri og leita sér aðstoðar og fá greiningu eins fljótt og mögulegt er. Það er helsta ráðið til að koma í veg fyrir útbreiðslu,“ segir Þórólfur.

Ekki sé líklegt að apabólan muni stökkbreytast og verða meira smitandi eða að smitleiðir verði aðrar en þær eru nú.

„Mér finnst það mjög ólíklegt. Þessi apabóla er búin að vera þekkt mjög lengi í Afríku og það hafa komið upp svona hópsmit af og til. Svo getur maður spurt sig hvort hún hafi verið í öðrum löndum án þess að hún hafi verið greind. Það getur alveg verið en mér finnst mjög ólíklegt að hún fari eitthvað að stökkbreytast.“

„Þetta er ekki smit fyrir almenning“

Hann telur því ekki þörf á því að hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu veirunnar hér á landi. Almenningur geti alveg haldið ró sinni þótt apabólan sé komin til landsins.

„Þetta er ekki smit fyrir almenning. Þetta smitast ekki við hefðbundin kynni eða að hitta einhvern með apabólu. Það þarf mikla og nána snertingu í töluverðan tíma til að smit verði. Það er allt öðruvísi en við þekkjum með Covid, þannig við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þetta smitist á þann máta.“

Verður líklega með okkur í töluverðan tíma

Allir sem fá bólur eða blöðrur á húð eru hvattir til að fara í einangrun og hafa samband símleiðis við húð- og kynsjúkdómadeild, göngudeild smitsjúkdóma eða heilsugæsluna.

Þá segir Þórólfur að stuðst verði við smitrakningu, líkt og við þekkjum frá Covid.

„Þetta eru hugtök sem eru fólki kunn en það er annar blær á þessu, það er eðlismunur. Við búumst ekki við stórum faraldri. Alls ekki.“

Þórólfur gerir því ekki ráð fyrir að þurfa að takast á við annan faraldur áður en hann lætur af störfum þann 1. september.

„Nei, ég vona að það verði ekkert meira úr þessu en þetta gæti verið með okkur, í ákveðnum hópum, hjá ákveðnum einstaklingum í einhvern tíma. Ég held að maður eigi alveg að gera fastlega ráð fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert