Forstjóri Niceair harmar vandræðin

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair, harmar röskun á högum fólks sem ætlar sér að styðja við bakið á flugfélaginu. Öllum flugferðum félagsins til og frá Bretlandi í júní hefur verið aflýst.

Bresk stjórnvöld töldu félagið ekki hafa heimildir til flugs til og frá Bretlandi en þau álitaefni komu upp vegna Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Fengu símtal tíu mínútum fyrir flugtak

„Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak í jómfrúarflugi félagsins til Bretlands fyrir viku. Í símtalinu var okkur tjáð að við fengjum ekki að taka farþega með til Íslands í því flugi þar sem leyfismál væru ekki á hreinu. Þetta kom flatt upp á okkur þar sem þessi mál höfðu aldrei borið á góma í þriggja mánaða ferli með breskum yfirvöldum og ekkert skriflegt hafði borist félaginu,“ skrifar hann á Facebook. 

Unnið hafi verið hratt að lausnum enda hafi félagið notið góðrar hjálpar íslenskra stjórnvalda og breska sendiráðsins. Þorvaldur segir í samtali við mbl.is að hann sé bjartsýnn á að lausn finnist og að hægt verði að fljúga til Bretlands innan tíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert